Skoðun

Er uggur í Alþingishúsinu?

Guðmundur Magnússon skrifar
Sagt er að einkennilegt andrúmsloft hafi verið í Alþingishúsinu við Austurvöll mánudaginn 11. mars árið 1991. Þingmenn, sem jafnan voru skrafhreifnir og léttir í lund, hafi verið óvenju þögulir þennan dag og þungt hugsi. Hafi engu skipt hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyrðu. Þeir hafi talað saman í lágum hljóðum eins og þeim hefðu borist váleg tíðindi eða dapurleg eða væru staddir í jarðaför. Úti fyrir dyrum þinghússins gekk lífið hins vegar sinn vana gang og þjóðin hafði síst á tilfinningunni að eitthvað væri í aðsigi sem hún þyrfti að hafa áhyggjur af.

Hvað var það sem olli lægðinni í þinghúsinu? Fyrir glögga og minnuga ætti að vera auðvelt að giska á svarið. Daginn áður hafði Davíð Oddsson borgarstjóri í Reykjavík verið kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins eftir harða kosningabaráttu við Þorstein Pálsson sem verið hafði formaður flokksins í átta ár. Davíð sat ekki á þingi eins og Þorsteinn en þingmönnum í öllum flokkum var samt oftar til hans hugsað en nokkurs annars stjórnmálamanns. Nafn hans var ítrekað nefnt í ræðustól þingsins. Úti í þjóðfélaginu naut hann mikilla vinsælda og hafði sem borgarstjóri unnið stærri stjórnmálasigra en nokkur fyrirrennara hans. En hann var óvenjulegur og óhefðbundinn í framgöngu og fasi, djarfur í skoðunum og talsmáta, og ekki datt nokkrum manni í hug að segja að hann væri í vasa einhvers eða einhverra, hvorki embættismanna eða kaupsýslumanna né ættarveldis eða hagsmunasamtaka.

Það var sjálfstæði og sjálfsöryggi Davíðs Oddssonar í orðum og verkum samfara óvenjulegum vinsældum, jafnvel þvert á flokkslínur, sem réð því að alþingismönnum stóð stuggur af honum. Þeir vissu að hann stóð fyrir breytingar en nákvæmlega hverjar og hvernig áttu þeir erfitt með að henda reiður á. En örygginu í "Klúbbnum" þeirra var ögrað og ógnað. Á því lék ekki vafi.

Ekki er örgrannt um að hugsun og viðhorf alþingismanna til Davíðs Oddssonar árið 1991 megi að breyttu breytanda heimfæra upp á stöðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um þessar mundir. Gagnvart þinginu er hún utangarðsmaður eins og Davíð var. Hún er ekki "Klúbbnum" ef nota má það hugtak yfir samkennd, skilning og hagsmuni þingmanna þvert á flokksbönd. Auðvitað á hún vini og samherja í þinghúsinu en hinir eru langtum fleiri, líka í hennar eigin flokki, sem hafa efasemdir um hana, stendur stuggur af henni, eru andsnúnir henni og þykir óþægileg tilhugsunin um hana í formannsstól Samfylkingarinnar. Þeir óttast að hún trufli ýmis áform og skaði sambönd.

Ingibjörgu Sólrúnu og Davíð Oddssyni hefur oft verið líkt saman - báðum til mikillar hrellingar! En þótt þau standi fyrir ólíka hluti og stefnu og stíl finnst mörgum sem horfa á stjórnmálin utan frá og án gleraugna stjórnmálaflokkanna að þau eigi margt sameiginlegt; sumt gott, annað miður gott. Í fyrri flokkinn flokkinn fellur sjálfstæði, röggsemi, hugrekki til að fara eigin leiðir og skilningur á sögulegu og hugmyndalegu samhengi stjórnmálanna. Í hinn síðari fellur ýmislegt í stíl þeirra, framgöngu og talsmáta. Þau eru stundum úr hófi kappsöm í umræðum, oft ögrandi í málflutningi og framsetningu skoðana. Og mörgum þykir jafnvel stjórnunarstíllinn sviplíkur. Um ádeilur á valdshyggju Davíðs Oddssonar þarf ekki að fara mörgum orðum. Og þótt Ingibjörg Sólrún hafi um skeið verið boðberi svokallaðra "umræðustjórnmála" eða samráðsstefnu í stjórnmálum - sem um margt er skynsamleg og tímabær - finnst mörgum að tæpur áratugur hennar í stól borgarstjóra í Reykjavík hafi fremur einkennst af valdsmannsstefnu en lýðræðislegu samráði "umræðustjórnmála". Hefur gagnrýni af þessu tagi ekki bara heyrst frá stjórnarandstæðingum í borgarstjórn heldur einnig innan úr Reykjavíkurlistanum.

Það greiddi götu Davíðs Oddssonar árið 1991 að sem borgarstjóri í Reykjavík var hann í áberandi valdastöðu í þjóðfélaginu. Kosningar fóru fram nokkrum vikum eftir að hann var kjörinn formaður og í kjölfarið myndaði hann ríkisstjórn. Aftur á móti er Ingibjörg Sólrún embættislaus og þingkosningar verða að óbreyttu ekki fyrr en eftir tvö ár. Jafnvel eftir að Davíð varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra átti hann í erfiðleikum með að ná tökum á þingflokki sínum; gerðu gamlir smákóngar í flokknum honum iðulega lífið leitt. Það er með öðrum orðum ekki fullur sigur unnin með formannskjöri einu. Eftirleikurinn getur verið erfiður, ekki síst ef ytri aðstæður í stjórnmálum eru óhagstæður.

Um það leyti sem Davíð bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni lýsti sá síðarnefndi því yfir að hann sæi hann, þ.e. Davíð, fyrir sér sem framtíðarleiðtoga Sjálfstæðisflokksins. Bara ekki núna! Og í viðtali við F2, fylgiblað Fréttablaðsins, í dag minnir Ingibjörg Sólrún á að Össur Skarphéðinsson hafi sagt að hann telji hana, þ.e. Ingibjörgu Sólrúnu, framtíðarleiðtoga Samfylkingar. En bara ekki núna! Þetta eru skemmtilegar sögulegar hliðstæður.

En er tími Ingibjargar Sólrúnar runninn upp með svipuðum hætti og Davíðs árið 1991? Segja má að Davíð hafi verið réttur maður á réttum stað og tíma. Þær miklu breytingar sem urðu á tíunda áratugnum voru ekki verk hans sem slíks heldur lágu þær í tímanum og voru öðrum þræði alþjóðlegar. Ekki er auðvelt að sjá fyrir sér að áratugurinn sem framundan er búi yfir sömu tækifærum til að láta að sér kveða. Og þó að Davíð Oddsson hafi komist upp með að hafa ekki mjög skýra stefnu í kosningunum 1991 er ekki víst að Ingibjörg Sólrún komist upp með það árið 2005. Sigur í formannskjöri í Samfylkingunni er ekki ávísun á kosningasigur.

Hvaða möguleika á Ingibjörg Sólrún til að verða formaður Samfylkingarinnar? Um það fer tvennum sögum, en flestir telja þó að þeir séu allmiklir því um er að ræða póstkosningu meðal almennra félagsmanna. Fylgi hennar sé hjá "grasrótinni" í flokknum en fylgi núverandi formanns meira hjá forystusveit á þingi og í sveitarstjórnum.

Fylgismenn Össurar Skarphéðinssonar benda á að hann hafi náð slíkum árangri í kosningum - og viðhaldið í könnunum - að réttmætt sé að hann sé áfram leiðtogi. Þeir benda á að hann eigi auðveldara en Ingibjörg Sórún með að umgangast aðra stjórnmálaforingja og mynda trúnaðarsamband við þá. Ingibjörg Sólrún sé nánast persona non grata í augum sumra forystumanna í öðrum flokkum; þeir muni aldrei sitja í ríkisstjórn undir hennar forsæti og geti vart hugsað sér stjórnarsamstarf við Samfylkinguna undir hennar forystu. Eitthvað svipað lá í loftinu þegar Davíð Oddsson varð formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir hálfum öðrum áratug. Flokksleiðtogar eins og Steingrímur Hermannsson þáverandi forsætisráðherra, Framsóknarflokki, Júlíus Sólnes umhverfisráðherra, Borgaraflokki, og Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra, Alþýðubandalagi, gátu ekki hugsað sér að vinna með honum. En örlög þeirra í stjórnmálum eru efni í annan þátt...

Hvað gerist næst? Reynir "Klúbburinn" kannski að koma í veg fyrir að utangarðsmaður hasli sér völl innanbúðar? Alþingismenn utan Samfylkingar hafa auðvitað ekki atkvæðisrétt í formannskjörinu en uppákomur í stjórnmálum geta haft áhrif á úrslit kosninganna. Ef til dæmis Össur Skarphéðinsson yrði ráðherra áður en kosningin hæfist er ekki ólíklegt að ýmsir flokksmenn hans hugsuðu sig um tvisvar áður en þeir felldu hann úr stólnum. Eru líkur á því? Tæpast. Það blasir að vísu við að á stjórnarheimilinu þrá hjónin tilbreytingu, eru orðin þreytt á sambandinu sem fyrir löngu er orðið ástlaust og innihaldslítið. Tilefni til skilnaður hrannast upp; nú síðast Öryggisráðsmálið. En það er ansi djarft að láta sér til hugar koma að framundan sé hröð atburðarás til þess eins að koma í veg fyrir að Ingibjörg Sólrún trufli stemmninguna í "Klúbbnum".

Samt. "Vika er langur tími í stjórnmálum..." Það getur enn ýmislegt gerst...

Guðmundur Magnússon -gm@frettabladid.is.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×