Erlent

Hvíta húsið með yfirlýsingu Davíðs

Á heimasíðu Hvíta hússins er að finna yfirlýsingu frá Davíð Oddssyni, fyrrum forsætisráðherra, sem dagsett er 18. mars 2003, sama dag og hann tók þá ákvörðun ásamt Halldóri Ásgrímssyni, að Íslendingar styddu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Yfirlýsingin er svohljóðandi: "Bandaríkin líta nú svo á að öryggi þeirra sé stórlega í hættu gagnvart gjörðum og árásum hryðjuverkamanna og vegna fjölda hótana frá löndum sem stjórnað er af einræðisherrum og harðstjórum. Þau trúa því að stuðningur frá þessu litla landi hafi að segja... Yfirlýsingin sem íslenska ríkisstjórnin gaf út varðandi deilurnar í Írak felur það í sér að við munum halda áfram þeirri nánu samvinnu sem við höfum haft við hinn öfluga bandamann okkar í vestri. Í fyrsta lagi felur þetta í sér leyfi til þess að fljúga yfir íslenska lofhelgi. Í öðru lagi leyfi til að nota Keflavíkurflugvöll ef þörf er á. Í þriðja lagi munum við taka þátt í uppbyggingu í Írak eftir að stríði lýkur. Í fjórða lagi lýsum við yfir pólitískum stuðningi við að ályktun 1441 sé framfylgt eftir fjögurra mánaða töf." Í yfirlýsingu Davíðs kemur fram að íslenska ríkisstjórnin hafi gefið út yfirlýsingu varðandi deilurnar í Írak. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði í viðtali í Kastljósinu, 6. desember síðastliðinn, þegar hann var spurður hvort ríkisstjórnin hefði samþykkt að styðja innrásina í Írak: "Það var engin formleg samþykkt gerð um það í ríkisstjórn." Fréttablaðið óskaði eftir svörum frá utanríkisráðuneytinu um það hvaða yfirlýsingu Davíð væri að vísa til. Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, vildi þetta eitt um málið segja: "Bandarískum yfirvöldum var tilkynnt ákvörðun forsætisráðherra og utanríkisráðherra eftir að hún lá fyrir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×