Innlent

Vindmyllan verður eitthvað áfram

Fréttablaðið greindi frá því í ágúst að myllan sú arna væri mörgum þyrnir í augum. Hún væri að grotna niður en enginn vissi í raun hver ætti hana og tæki ákvörðun um hvað gert yrði við hana. "Það eru meiri líkur en minni á því að hún verði þarna eitthvað, að minnsta kosti næstu mánuðina" sagði Óttar. "Ríkið var með þennan pakka á sínum tíma, en hver vill eiga hana?" Spurður hvort vindmyllan væri kannski til sölu sagði oddvitinn að ekki væri hægt að selja það sem enginn vissi hver ætti. "Ég hef ekki séð í neinum gögnum hjá sveitarfélaginu að okkur hafi verið ánafnað þetta. Þetta er mál sem kanna þarf hjá iðnaðarráðuneytinu. Það er ekkert viðhald á henni núna. Sumum finnst að þetta eigi að vera þarna sem minnisvarði, en það eru skiptar skoðanir á því. Hún má fara mín vegna. Það er engin sérstök eftirsjá í þessu af minni hálfu, en langbest væri ef hægt væri að nýta hana." Óttar kvaðst þó ekki telja að það yrði gert. Það væri ekki í umræðunni og hefði ekki verið athugað. "Að sjálfsögðu þyrfti að ganga í þetta mál, en það er eins með það og annað, þegar þetta er farið að dankast þá er eins og sé erfitt að fara að gera eitthvað í því. En meðan ekki er vitað hvert ástandið á þessu er, þá er ekki vitað hvort einhver grundvöllur er fyrir að gera eitthvað fyrir þetta eða rífa það og láta það hverfa."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×