Erlent

Bandaríkjamenn yfirgefa Írak?

George Bush Bandaríkjaforseti sagðist í gær reiðubúinn til þess að kalla herlið Bandaríkjanna út úr Írak, færi svo að nýkjörin stjórnvöld í landinu myndu fara þess á leit. Í viðtali við New York Times í gær sagði Bush að Írakar stæðu á eigin fótum og væri það vilji þeirra að losna við herlið Bandaríkjamanna eftir kosningarnar yrði gengið að því. Bush sagðist hins vegar hafa rætt við þá sem líklegastir væru til þess að ná kjöri á sunnudaginn og sagði þá alla gera sér grein fyrir því að líklega væri þörf á að hafa bandaríska hermenn í landinu, a.m.k. þangað til Írakar gætu sjálfir varið sig. Þá hrósaði forsetinn einnig Mahmoud Abbas, nýkjörnum leiðtoga Palestínu, og sagði hann endurspegla vilja palestínsku þjóðarinnar. Bush sagðist statt og stöðugt trúa því að innan skamms næði lýðræði fram að ganga í Írak og sömuleiðis algert sjálfstæði Palestínumanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×