Erlent

Ástandið í Danmörku fegrað

Mogens Lykketoft, formaður Sósíaldemókrata, segir kosningabaráttuna í Danmörku vera erfiðari en oft áður og sakar stjórnvöld í landinu um að mála glansmynd af ástandinu í landinu. Sighvatur Jónsson, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, er í Danmörku og hitti Lykketoft að máli í morgun. Kosningabaráttan í Danmörku snýst mikið um þá Lykketoft og Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra landsins og formann Venstre-flokksins, og ferðast þeir nú um Danmörku á stórum „hljómsveitarrútum“ ef svo má segja. Lykketoft lofar að skapa 50 þúsund ný störf ef hann og flokkur hans fá meirihlutafylgi. Lykketoft heimsótti grunnskóla í Árósum í dag og var hann vinsæll hjá börnum. Það sama er ekki hægt að segja um Rasmussen sem var hreinlega púaður niður á fundi í Svensborg sem hann ætlaði að halda í gær. Mótmælendur voru þónokkrir og mótmæltu þeir fyrst og fremst Íraksstríðinu sem Danir taka þátt í. Í Íslendingabænum Horsens var mikil stemning í gær þar sem 3500 manns mættu í íþróttahöllina til að fylgjast með sjónvarpskappræðum flokkanna tíu. Nánar verður fjallað um kosningabaráttuna í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×