Erlent

32 fallið á tveimur dögum

Tólf manns hið minnsta liggja í valnum eftir árásir dagsins, þar af tveir bandarískir hermenn. Í gær létust tuttugu, þar af einn Bandaríkjamaður.

Í dag var landinu í reynd lokað til að koma í veg fyrir frekari árásir uppreisnarmanna. Almennt er búist við hinu versta næstu tvo dagana en yfirvöld vilja þó vera bjartsýn og segjast hafa náð góðum árangri í baráttunni við öfgahópa.

Reyndar má segja að kosningarnar hafi formlega hafist í morgun þegar brottfluttir Írakar í þrettán löndum byrjuðu að kjósa utankjörfundar. Áhugaleysi hefur þó einkennt kosningarnar því af þeirri einni milljón Íraka sem talið er að búi utan Íraks, skráðu aðeins um 280 þúsund manns sig sérstaklega á kjörskrá til að öðlast kjörgengi. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti Íraka til að fjölmenna á kjörstað í dag og láta hugsanlega andstöðu sína við hernám Bandaríkjastjórnar ekki hafa áhrif þar á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×