Erlent

Síðustu stundirnar blóði drifnar

Síðustu stundirnar fyrir fyrstu frjálsu kosningarnar í Írak eru blóði drifnar. Barist er á götum úti og um traust kjósenda sem óttast er að þori ekki á kjörstaði á morgun. Skæruliðar og hryðjuverkamenn í Írak gera allt hvað þeir geta til að spilla kosningunum á morgun og hafa þeir undanfarinn sólarhring fellt töluverðan fjölda fólks, hermenn og óbreytta borgara í herferð sinni. Yfirvöld hafa nokkrar áhyggjur af afleiðingum þessa á kosningaþátttökuna. Forseti Íraks sagðist í sjónvarpsviðtali telja að meirihluti Íraka myndi ekki taka þátt í kosningunum vegna öryggisástandsins en nokkru síðar sagði hann að að líkindum myndu tveir þriðju hlutar þeirra sem hefðu atkvæðisrétt kjósa. Yfirvöld og helstu klerkar sjíta hvetja sína fylgismenn til að kjósa en kannanir benda til þess að mikill meirihluti súnníta hyggist sniðganga kosningarnar. Barham Saleh, starfandi innanríkisráðherra Íraks, segir einfalda skýringu á því af hverju uppreisnar- og hryðjuverkamenn vilja ekki að kosningarnar takist vel. Osama Bin Laden hafi gefið það út opinberlega að engar kosningar eigi að fara fram í Írak og al-Kaída og skyldar hreyfingar verði að koma í veg fyrir að Írakar mæti á kjörstað. Að hans sögn er þetta vegna þess að ef Írökum tekst að byggja upp virkt lýðræði í hjarta hinna múslimsku Miðausturlanda verða afleiðingarnar gífurlegar, ekki bara í Írak heldur í öllum heimshlutanum, fyrir íslam, hryðjuverkamenn, „Bin Ladena“ þessa heims og fyrir hagsmuni Vesturlanda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×