Erlent

Lykketoft valtur í sessi

Níu af hverjum tíu sem hafa yfirgefið danska Jafnaðarmannaflokkinn í kosningabaráttunni eru konur og formaðurinn, Mogens Lykketoft, er valtur í sessi. Sighvatur Jónsson, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, skýrir stöðu mála og fer yfir kosningaloforð dönsku flokkanna. Þingkosningar fara fram í Danmörku 8. febrúar næstkomandi og kosningabaráttan er að ná hámarki með tilheyrandi kosningaloforðum. Meðal loforða flokkanna eru: nýtilkomið gjald á notkun dönsku debetkortanna Dankort verður afnumið, heimahjálp aldraðra fær viðbótarfjármagn sem nemur sex milljörðum íslenskra króna, ókeypis verður á listasöfn Danmerkur og skráningarkostnaður verður lægri á umhverfisvænum bílum. Einnig verður barist gegn markaðssetningu óhollrar fæðu og auglýsingum sem beint er að börnum, barnabótasjóður hækkar sem nemur 100 milljörðum íslenskra króna og hærra þak verður á greiðslum til einstæðra mæðra. Síðastnefnda loforðið er frá Jafnaðarmannaflokknum sem spáð er verstu útreið í 30 ár og vangaveltur eru uppi um hvort Mogens Lykketoft, formaður flokksins, hætti í kjölfarið en hann tók við af Poul Nyrup Rasmussen árið 2002. Einstæðar mæður og konur almennt virðast ekki hlusta á jafnaðarmenn því samkvæmt nýrri Gallup-könnun eru konur 90% þeirra kjósenda sem flokkurinn hefur misst í kosningabaráttunni undanfarinn hálfan mánuð. Andstæðingarnir í Venstre stefna á glæstan sigur en átta prósent aðskilja flokkana. En lífið er ekki dans á rósum hjá Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra og formanni Venstre. Líkt og tíðkast hjá stjórnmálamönnum á toppnum er hann vinsæll og um leið umdeildur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×