Innlent

Hallarbyltingu afstýrt

Páli Magnússyni varaþingmanni tókst að afstýra því að andstæðingar hans næðu völdum í Félagi ungra framsóknarmanna í Kópavogi á aðalfundi félagsins í gærkvöldi. Tilkynnt hafði verið um 40 nýskráningar í félagið í gær og leit út fyrir að andstæðingar Páls myndu taka yfir stjórn félagsins og fella formanninn, Einar Kristján Jónsson. Einar er bróðir Guðjóns Ólafs Jónssonar varaþingmanns og samstarfsmanns Páls. Deilur brutust út fyrir fundinn þegar sitjandi stjórn neitaði nýskráðum félögum aðgang að fundinum. Að loknum hálftíma þrætum um lög félagsins mættu Páll og bæjarfulltrúinn Ómar Stefánsson á staðinn og funduðu með sitjandi formanni fyrir luktum dyrum. Ómar og Páll eru sagðir tilheyra sitthvorri fylkingunni innan Framsóknarflokksins. Lyktirnar urðu þær að nýjum félögum var leyfður aðgangur og sátt náðist um nýja stjórn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fólst sáttin í því að stuðningsmenn Ómars féllust á að reyna ekki hallarbyltingu en fengju þess í stað tvo menn í sjö manna stjórn og ákveðinn fjölda fulltrúa á flokksþing. Athygli vakti að Hansína Á. Björgvinsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, var við upphaf fundarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×