Viðskipti innlent

Bretar fjalla um Landsbankann

Breskir fjölmiðlar fjalla talsvert um yfirtökutilboð Landsbankans í verðbréfafyrirtækið Teather og Greenwood og þykir tilboðið í þetta smáfyrirtæki vera rausnarlegt. Financial Times segir til dæmis að strandhögg víkinga séu nú ekki svipur hjá sjón. Þeir fari ekki lengur með báli og brandi heldur komi þeir í jakkafötum, berandi rausnarlegar gjafir. Financial Times segir að Landsbankinn hafi boðið tæplega fimm milljarða króna fyrir Teather og Greenwood og sé það vel boðið. Núverandi stjórn fyrirtækisins fái að sitja áfram, nafnið haldi sér, enginn missi vinnuna og fyrirtækið verði áfram rekið sem sjálfstæð eining. Það eina sem virðist breytast sé að Teather og Greenwood fái aðgang að sjóðum Landsbankans til þess að breikka starfsemi sína. Og Financial Times segir: „Það verður ekki skemmtilegra en þetta, að láta yfirtaka sig.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×