Erlent

Vírusar leggist á síma og bílvélar

Vírusar verða ekki bundnir við tölvur í framtíðinni, heldur gætu þeir einnig átt eftir að leggjast á síma og bílvélar svo fátt eitt sé nefnt. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skýrslu, sem öryggisdeild IBM framkvæmdi og verður birt í dag. Gögnin sem skýrslan byggist á koma meðal annars frá stórum viðskiptavinum fyrirtækisins, stjórnvöldum í Bandaríkjunum og athugunum tvö þúsund öryggisráðgjafa IBM. Í skýrslunni kemur fram að með aukinni netvæðingu símafyrirtækja um allan heim aukist verulega líkurnar á því að farsímanotendur verði fyrir barðinu á óprúttnum tölvuþrjótum. Þá er einnig bent á að verulegar líkur séu á að vírusar muni finnast í bílum innan skamms enda innihaldi nýir bílar að jafnaði um sextíu megabæt af hugbúnaði. Nærri 30 þúsund nýir vírusar bættust í flóru þeirra sem fyrir voru á árinu 2004. Til samanburðar var fjöldi nýrra vírusa meira en sexfalt minni árið 2002. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að nærri sex prósent allra þeirra 147 milljarða tölvupósta sem IBM skoðaði á árinu 2004 voru sýkt af tölvuvírus. Þetta er tólf sinnum hærra hlutfall en árið 2002 þegar aðeins ein af hverjum tvö hundruð tölvupóstsendingum innihélt vírus.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×