Innlent

Pólitísk tíðindi við Tjörnina?

Pólitískra tíðinda gæti verið að vænta úr tólf manna matarveislu við Tjörnina í kvöld. Þingmenn Framsóknarflokksins ætla að snæða saman og ræða málefni flokksins, þar á meðal stöðu Kristins H. Gunnarssonar sem útilokaður var frá nefndarstarfi í haust. Sáttatónn virðist vera kominn í menn. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir ekkert óvenjulegt við fundinn í kvöld en miðað við samtöl fréttastofu við þingmenn flokksins í dag er greinilegt að menn búast við að til tíðinda kunni að draga. Ekki þó þannig að Kristinn H. fái aftur sæti í þingnefndum heldur tali menn um að sættir verði í áföngum. Fyrsti áfangi verði tekinn í kvöld þó viðræður hafi staðið yfir allt frá kjördæmisþinginu í Norðvesturkjördæmi fyrir jól. Þingmennirnir segja að allir verði að gefa eitthvað eftir, þetta verði aldrei einhliða sátt. Kristinn tekur undir þetta en segist þó ekki vera tilbúinn að gangast undir kröfur um eins konar skilorð. Litið er á tilraunir til sátta innan þingflokksins sem eins konar viðbrögð við mótbárum að undanförnu, þar á meðal slælegri útkomu í skoðanakönnunum. Einnig er talið skipta máli að stutt er í flokksþing og þá vilji menn sýna samstilltan flokk. Flokksstjórnin geti heldur ekki lengi litið fram hjá kjósendum Kristins á Vestfjörðum sem margir hverjir líti svo á að þeir hafi verið settir út í kuldann með Kristni. Þessa skoðun fékk Halldór Ásgrímsson, formaður flokksins, meðal annars að heyra á opnum stjórnmálafundi á Ísafirði í síðustu viku. Svo er bara að sjá hversu vel stemmdir þingmenn Framsóknarflokksins verða í kvöld og hvort sáttaskref verði tekið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×