Fínir menn 19. febrúar 2005 00:01 Afhending Háskólasjóðsins í síðustu viku vekur upp ýmsar hugrenningar - ekki allar jafn fagrar. Jú, manni verður auðvitað hugsað til Vestur-Íslendinganna sem gáfu þessa fjármuni af miklum stórhug, fórnfýsi þeirra og ræktarsemi. Hugsjón þessa fólks sem hafði flæmst burt af gamla landinu var að efla menntun meðal þjóðarinnar. Það setti fjármuni í hendur manna sem vissulega ávöxtuðu þá nokkuð vel, en notuðu þá í eigin þágu með mjög bíræfnum hætti. Annað sem kemur upp er stæk óbeit á einkaframtaki - öllu sem ekki fer með einhverjum hætti gegnum ríkið. Það kemur dálítið á óvart. Og svo vekur þetta upp minningar um gamlan tíma í viðskipta- og þjóðlífi, þegar örfáir hrokafullir viðskiptamógúlar höfðu komið sér upp einokunarsýstemi sem þeir ætluðu líklega að yrði eilíft - altént gáðu þeir ekki að sér fyrr en þeir glopruðu því út úr höndunum á sér. Svo vakna spurningar um nýja aðalleikara sem ýmsum virðist að stefni í álíka forréttindastöðu í samfélaginu. Akademían fagnar Það var mikil seremónía þegar Björgólfur yngri afhenti Páli háskólarektor féð - spunamenn Björgólfanna reyndu auðvitað að gera eins mikið úr tækifærinu og hægt var. Þó vakti þetta kannski ekki þá athygli sem það átti skilið, altént ekki í ljósi sögunnar. Vissulega er sumt að falla í gleymsku og dá. En rektorinn var sem bergnuminn og Reykjavíkurakademían sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem því var fagnað að að veittir séu styrkir til stofnana "á sviði fræða, menningar og lista jafnmyndarlega og fyrirtæki Björgólfsfeðga hafa gert síðustu misseri". Síðbúinn bolsévismi Var akademían með þessu að kyssa á rass? Að minnsta kosti ollu þessi orð því að gaus upp einhvers konar síðbúinn bolsévismi hjá meðlimum akademíunnar, einhvers konar krampakennd tortryggni gagnvart einkaframtakinu . Á póstlista akademíunnar gengu fram og til baka skammarbréf þar sem var sagt að "Björgólfsfeðgar geri ekki neitt fyrir neitt" og að það sé "spurning hvort þeir standi alltaf við gefin loforð". Því var svo bætt við að akademíumeðlimir hefðu gerst "áróðursfólk í einkavæðingaræði ríkisstjórnarinnar". Pínulítið er það nú skrítið í ljósi þess að Reykjavíkurakademían er einkaframtak - hún er stofnuð af fólki sem ekki komst að hjá hinum opinbera háskóla eða vildi ekki starfa þar. Akademían fær ekki mikla opinbera styrki - á mikið undir framlögum frá einkaaðilum. Síðustu árin hefur líka stöðugt verði auglýst eftir auðmönnum sem væru tilbúnir að ganga inn í rullu einhvers konar Ragnars í Smára. Ögmundur móðgast Vanmetakenndin gaus þó ekki síst upp hjá Ögmundi Jónassyni. Á vef sínum lýsti hann ónotakenndinni sem greip hann þegar hann las yfirlýsingu Reykjavíkurakademíunnar. Hann segist svo vera þungt hugsi yfir oflátungshættinum í "þessum mannskap" og "þeirri lítilsvirðingu sem félagslegu framtaki er sýnt". Ókei. Ögmundur benti á það þetta væru ekki peningar Björgólfanna - því hefur heldur ekki verið haldið fram. En þeir hefðu samt ekki þurft að afhenda þá, um það eru engar kvaðir. Samt eru þeir að drullast til að koma þeim til réttra aðila - sem er meira en fyrri umsjónarmenn fjárins gátu afrekað á fjörutíu árum. Táknræn útför Kolkrabbans Afhending sjóðsins hefur ansi mikið táknrænt gildi - táknrænt fyrir eignarhaldið á Eimskipafélaginu og kannski líka eignarhaldið á íslensku þjóðfélagi. Það er ekki fráleitt að Björgólfi hafi verið hlátur í hug þennan dag. Kannski má segja að þarna sé rekunum kastað á Kolkrabbann gamla, maður sér fyrir sér skrímslið í gröfinni, illa þefjandi - en maður er ekki samt ekki alveg viss um nema það dragi andann. Tilgangurinn með sjóðnum var á sínum tíma að koma sem mestu af hlutabréfunum sem Vestur-Íslendingar keyptu forðum tíð í Eimskipafélagi Íslands aftur til landsins og nota féð til að styðja Háskóla Íslands. Hins vegar var svo óheppilega búið um hnútana að það beinlínis æpti á misnotkun. Það voru stjórn Eimskips og forstjóri þess sem fóru með umsjón sjóðsins án nokkurs eftirlits. Þeir gátu notað hann eins og þeim sýndist. Vestur-Íslendingar blekktir Sjóðurinn nam fimm prósentum af hlutafé Eimskipafélagsins; hann var um skeið fjórði stærsti hluthafinn í félaginu. Þennan hlut notaði stjórnin til að tryggja völd sín og áhrif í félaginu - og jafnframt í gervöllum íslenska viðskiptaheiminum. Peningar voru aðeins lítillega greiddir úr sjóðnum til þess málefnis sem var ætlast til. Arðurinn var eftir í Eimskipafélaginu - stjórnendur í félaginu þurftu sjálfir að eiga minna í félaginu sem þessu nam. Þannig voru Vestur-Íslendingarnir blekktir; sjóðurinn myndaði grundvöllinn að veldi manna sem smátt og smátt bættu líka við sig Flugleiðum, Sjóvá, Skeljungi og fleiri fyrirtækjum - fyrirbærisins sem síðar var farið að kalla Kolkrabbann. Braskað með Óskabarn þjóðarinnar Hin leiðin sem þessi hópur notaði til að sölsa undir sig félagið var ekki síður sniðug. Enginn hlutabréfamarkaður var í landinu og engin viðskipti með hlutabréf. Eimskip var stofnað sem almenningshlutafélag 1915, var þá kallað Óskabarn þjóðarinnar, en svo ekki söguna meir. Hlutabréf í Eimskip lágu eins og hráviði út um allan bæ eða héngu eins og stofustáss á veggjum. Þegar gamalt fólk kom með lúin hlutabréf í óskabarninu inn á skrifstofur félagsins var starfsfólki uppálagt að kaupa þau á nafnvirði. Það spurðist út að hægt væri að koma gömlum bréfum í verð - og þá tók að streyma að ungt fólk sem fékk þessi bréf í arf. Forráðamenn Eimskipafélagsins voru góðu mennirnir sem aumkuðu sig yfir þetta vesalings fólk sem hvergi gat losnað við eign sína. Það sem fólkið fékk fyrir var smánarupphæð miðað við raunverulegt verðmæti. Keypt handa þremenningunum Í bókinni Á slóð Kolkrabbans eftir Örnólf Árnason, sem kom út 1991, er þessi saga rakin: "Hið mikla "triumvirat",....stjórnarformaður félagsins, varaformaðurinn og forstjórinn, keyptu svo sjálfir hlutabréfin af félaginu á þessu sama góða verði... Ef upp kæmist að yfirmenn almenningshlutafélags í Bandaríkjunum, Danmörku eða öðrum löndum hefðu staðið í svona braski sætu þeir bak við lás og slá. Þar er þetta nefnilega lögbrot. Við búum aftur á móti við frumstæða löggjöf. Ekkert sem bannar innherjaviðskipti. Samt urðu margir hluthafar Eimskips ævareiðir þegar þeim barst njósn af aðförum þremenninganna" Örnólfur lýsir því svo hvernig þeir höfðu "roskinn og huggulegan" mann til að kaupa bréfin af fólki sem rakst inn - "hann hafði þrjú tékkhefti til endurkaupa frá félaginu, eitt fyrir hvern. Fyrirmæli þessa manns voru þau að kaupa sem jafnast handa þremenningunum". Þeir voru Halldór H. Jónsson, Indriði Pálsson og Hörður Sigurgestsson. Morgunblaðinu blöskrar Fleirum blöskraði þetta, líka mönnum sem yfirleitt voru orðvarir og vildu standa vörð um stoðir samfélagsins. Í frægu Reykjavíkurbréfi sem Styrmir Gunnarsson ritaði í Morgunblaðið 10. mars fjallaði hann um fákeppni og lélegt viðskiptasiðferði - mál sem honum hafa lengi verið hugleikin. Styrmir sagði frá draumum um íslenskan hlutabréfamarkað, kvartaði undan fámennisveldi sem hefði orðið til innan Eimskipafélagsins, og sagði svo: "Af þessum sökum er ekki ólíklegt, að samþjöppun á eignaraðild að Eimskipafélaginu hafi orðið með þeim hætti á löngum tíma, að eigendur hlutabréfa hafi komið á skrifstofu félagsins og óskað eftir því, að félagið keypti bréfin, sem hafa verið seld aftur ýmsum af núverandi forystumönnum fyrirtækisins." Varð aldrei hneykslismál Af einhverjum sökum, kannski vegna slappleika eða þekkingarleysis fjölmiðla, varð aldrei úr þessu fullgilt hneykslismál. Málið var þó talsvert til umræðu - olli meðal annars frægum vinslitum milli Moggans og Harðar Sigurgestssonar. Ýmsum er þó enn heitt í hamsi yfir þessu. Eftir afhendingu Háskólasjóðsins í síðustu viku fékk ég til dæmis tölvupóst frá gömlum vini mínum þar sem sagði: "Aldrei var króna greidd til Háskólans úr Háskólasjóði Eimskips fyrr en nú þegar menn með ábyrgðartilfinningu og siðferðiskennd eignast Eimskipafélagið. Þeir þurfa hins vegar að sitja undir því daginn út og inn ásamt öðrum nýjum athafnamönnum að vera þjófar, þjófsnautar, mútuþegar, skattsvikarar eða eitthvað þaðan af verra. Athyglisvert er að enginn af gömlu svindlurunum er spurður af hverju misfarið hafið verið með Háskólasjóðinn áratugum saman?" Já, það er vissulega spurning. Nýir leikendur En þetta voru fínir menn, fínir með sig og nánast ósnertanlegir á þeim tíma; vanir því að allir bukkuðu sig og beygðu fyrir þeim. Aldrei töldu þeir sig þurfa að flenna sig í fjölmiðlum. Almúginn fór í bíltúra á Ægissíðuna til að reyna að sjá glitta í veislurnar inn um gluggana hjá þeim. Auðmenn nútímans standa okkur talsvert nær, þeir eru sífellt í fjölmiðlunum, ímyndin er þeim afskaplega dýrmæt. Hér er líka komin upp hlutabréfamarkaður og aðhald fjölmiðlanna er vísast nokkuð kröftugra. En þrátt fyrir að búið sé að skipta um leikendur í nánast öllum hlutverkum, getur maður ekki varist þeirri tilhugsun að sumt sé á vitlausri leið. Styrmir er allavega enn á sama stað með sín varnaðarorð um fákeppni og einokun - veitir kannski ekki af. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Blaðagreinar Silfur Egils Mest lesið Með háskólapróf til að snýta og skeina? Hildur Sólmundsdóttir Skoðun Hérna eru aukalega 6000 íbúðir. Veskú Ævar Rafn Hafþórsson Skoðun Við þekkjum öll einn alkóhólista - hættum að stinga höfðinu í sandinn Bryndís Rós Morrison Skoðun Staðreyndir um jafnlaunavottun Bryndís Elfa Valdemarsdóttir ,Jón Fannar Kolbeinsson Skoðun Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun Missum ekki af orkuskiptalestinni Tómas Þór Þórðarson Skoðun Börnum fórnað fyrir bætt kjör Guðný Hrafnkelsdóttir Skoðun Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Fimm ástæður fyrir að vextirnir eru á réttri leið Konráð S. Guðjónsson Skoðun Fastur heimilislæknir sem þekkir þig Kristrún Frostadóttir Skoðun
Afhending Háskólasjóðsins í síðustu viku vekur upp ýmsar hugrenningar - ekki allar jafn fagrar. Jú, manni verður auðvitað hugsað til Vestur-Íslendinganna sem gáfu þessa fjármuni af miklum stórhug, fórnfýsi þeirra og ræktarsemi. Hugsjón þessa fólks sem hafði flæmst burt af gamla landinu var að efla menntun meðal þjóðarinnar. Það setti fjármuni í hendur manna sem vissulega ávöxtuðu þá nokkuð vel, en notuðu þá í eigin þágu með mjög bíræfnum hætti. Annað sem kemur upp er stæk óbeit á einkaframtaki - öllu sem ekki fer með einhverjum hætti gegnum ríkið. Það kemur dálítið á óvart. Og svo vekur þetta upp minningar um gamlan tíma í viðskipta- og þjóðlífi, þegar örfáir hrokafullir viðskiptamógúlar höfðu komið sér upp einokunarsýstemi sem þeir ætluðu líklega að yrði eilíft - altént gáðu þeir ekki að sér fyrr en þeir glopruðu því út úr höndunum á sér. Svo vakna spurningar um nýja aðalleikara sem ýmsum virðist að stefni í álíka forréttindastöðu í samfélaginu. Akademían fagnar Það var mikil seremónía þegar Björgólfur yngri afhenti Páli háskólarektor féð - spunamenn Björgólfanna reyndu auðvitað að gera eins mikið úr tækifærinu og hægt var. Þó vakti þetta kannski ekki þá athygli sem það átti skilið, altént ekki í ljósi sögunnar. Vissulega er sumt að falla í gleymsku og dá. En rektorinn var sem bergnuminn og Reykjavíkurakademían sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem því var fagnað að að veittir séu styrkir til stofnana "á sviði fræða, menningar og lista jafnmyndarlega og fyrirtæki Björgólfsfeðga hafa gert síðustu misseri". Síðbúinn bolsévismi Var akademían með þessu að kyssa á rass? Að minnsta kosti ollu þessi orð því að gaus upp einhvers konar síðbúinn bolsévismi hjá meðlimum akademíunnar, einhvers konar krampakennd tortryggni gagnvart einkaframtakinu . Á póstlista akademíunnar gengu fram og til baka skammarbréf þar sem var sagt að "Björgólfsfeðgar geri ekki neitt fyrir neitt" og að það sé "spurning hvort þeir standi alltaf við gefin loforð". Því var svo bætt við að akademíumeðlimir hefðu gerst "áróðursfólk í einkavæðingaræði ríkisstjórnarinnar". Pínulítið er það nú skrítið í ljósi þess að Reykjavíkurakademían er einkaframtak - hún er stofnuð af fólki sem ekki komst að hjá hinum opinbera háskóla eða vildi ekki starfa þar. Akademían fær ekki mikla opinbera styrki - á mikið undir framlögum frá einkaaðilum. Síðustu árin hefur líka stöðugt verði auglýst eftir auðmönnum sem væru tilbúnir að ganga inn í rullu einhvers konar Ragnars í Smára. Ögmundur móðgast Vanmetakenndin gaus þó ekki síst upp hjá Ögmundi Jónassyni. Á vef sínum lýsti hann ónotakenndinni sem greip hann þegar hann las yfirlýsingu Reykjavíkurakademíunnar. Hann segist svo vera þungt hugsi yfir oflátungshættinum í "þessum mannskap" og "þeirri lítilsvirðingu sem félagslegu framtaki er sýnt". Ókei. Ögmundur benti á það þetta væru ekki peningar Björgólfanna - því hefur heldur ekki verið haldið fram. En þeir hefðu samt ekki þurft að afhenda þá, um það eru engar kvaðir. Samt eru þeir að drullast til að koma þeim til réttra aðila - sem er meira en fyrri umsjónarmenn fjárins gátu afrekað á fjörutíu árum. Táknræn útför Kolkrabbans Afhending sjóðsins hefur ansi mikið táknrænt gildi - táknrænt fyrir eignarhaldið á Eimskipafélaginu og kannski líka eignarhaldið á íslensku þjóðfélagi. Það er ekki fráleitt að Björgólfi hafi verið hlátur í hug þennan dag. Kannski má segja að þarna sé rekunum kastað á Kolkrabbann gamla, maður sér fyrir sér skrímslið í gröfinni, illa þefjandi - en maður er ekki samt ekki alveg viss um nema það dragi andann. Tilgangurinn með sjóðnum var á sínum tíma að koma sem mestu af hlutabréfunum sem Vestur-Íslendingar keyptu forðum tíð í Eimskipafélagi Íslands aftur til landsins og nota féð til að styðja Háskóla Íslands. Hins vegar var svo óheppilega búið um hnútana að það beinlínis æpti á misnotkun. Það voru stjórn Eimskips og forstjóri þess sem fóru með umsjón sjóðsins án nokkurs eftirlits. Þeir gátu notað hann eins og þeim sýndist. Vestur-Íslendingar blekktir Sjóðurinn nam fimm prósentum af hlutafé Eimskipafélagsins; hann var um skeið fjórði stærsti hluthafinn í félaginu. Þennan hlut notaði stjórnin til að tryggja völd sín og áhrif í félaginu - og jafnframt í gervöllum íslenska viðskiptaheiminum. Peningar voru aðeins lítillega greiddir úr sjóðnum til þess málefnis sem var ætlast til. Arðurinn var eftir í Eimskipafélaginu - stjórnendur í félaginu þurftu sjálfir að eiga minna í félaginu sem þessu nam. Þannig voru Vestur-Íslendingarnir blekktir; sjóðurinn myndaði grundvöllinn að veldi manna sem smátt og smátt bættu líka við sig Flugleiðum, Sjóvá, Skeljungi og fleiri fyrirtækjum - fyrirbærisins sem síðar var farið að kalla Kolkrabbann. Braskað með Óskabarn þjóðarinnar Hin leiðin sem þessi hópur notaði til að sölsa undir sig félagið var ekki síður sniðug. Enginn hlutabréfamarkaður var í landinu og engin viðskipti með hlutabréf. Eimskip var stofnað sem almenningshlutafélag 1915, var þá kallað Óskabarn þjóðarinnar, en svo ekki söguna meir. Hlutabréf í Eimskip lágu eins og hráviði út um allan bæ eða héngu eins og stofustáss á veggjum. Þegar gamalt fólk kom með lúin hlutabréf í óskabarninu inn á skrifstofur félagsins var starfsfólki uppálagt að kaupa þau á nafnvirði. Það spurðist út að hægt væri að koma gömlum bréfum í verð - og þá tók að streyma að ungt fólk sem fékk þessi bréf í arf. Forráðamenn Eimskipafélagsins voru góðu mennirnir sem aumkuðu sig yfir þetta vesalings fólk sem hvergi gat losnað við eign sína. Það sem fólkið fékk fyrir var smánarupphæð miðað við raunverulegt verðmæti. Keypt handa þremenningunum Í bókinni Á slóð Kolkrabbans eftir Örnólf Árnason, sem kom út 1991, er þessi saga rakin: "Hið mikla "triumvirat",....stjórnarformaður félagsins, varaformaðurinn og forstjórinn, keyptu svo sjálfir hlutabréfin af félaginu á þessu sama góða verði... Ef upp kæmist að yfirmenn almenningshlutafélags í Bandaríkjunum, Danmörku eða öðrum löndum hefðu staðið í svona braski sætu þeir bak við lás og slá. Þar er þetta nefnilega lögbrot. Við búum aftur á móti við frumstæða löggjöf. Ekkert sem bannar innherjaviðskipti. Samt urðu margir hluthafar Eimskips ævareiðir þegar þeim barst njósn af aðförum þremenninganna" Örnólfur lýsir því svo hvernig þeir höfðu "roskinn og huggulegan" mann til að kaupa bréfin af fólki sem rakst inn - "hann hafði þrjú tékkhefti til endurkaupa frá félaginu, eitt fyrir hvern. Fyrirmæli þessa manns voru þau að kaupa sem jafnast handa þremenningunum". Þeir voru Halldór H. Jónsson, Indriði Pálsson og Hörður Sigurgestsson. Morgunblaðinu blöskrar Fleirum blöskraði þetta, líka mönnum sem yfirleitt voru orðvarir og vildu standa vörð um stoðir samfélagsins. Í frægu Reykjavíkurbréfi sem Styrmir Gunnarsson ritaði í Morgunblaðið 10. mars fjallaði hann um fákeppni og lélegt viðskiptasiðferði - mál sem honum hafa lengi verið hugleikin. Styrmir sagði frá draumum um íslenskan hlutabréfamarkað, kvartaði undan fámennisveldi sem hefði orðið til innan Eimskipafélagsins, og sagði svo: "Af þessum sökum er ekki ólíklegt, að samþjöppun á eignaraðild að Eimskipafélaginu hafi orðið með þeim hætti á löngum tíma, að eigendur hlutabréfa hafi komið á skrifstofu félagsins og óskað eftir því, að félagið keypti bréfin, sem hafa verið seld aftur ýmsum af núverandi forystumönnum fyrirtækisins." Varð aldrei hneykslismál Af einhverjum sökum, kannski vegna slappleika eða þekkingarleysis fjölmiðla, varð aldrei úr þessu fullgilt hneykslismál. Málið var þó talsvert til umræðu - olli meðal annars frægum vinslitum milli Moggans og Harðar Sigurgestssonar. Ýmsum er þó enn heitt í hamsi yfir þessu. Eftir afhendingu Háskólasjóðsins í síðustu viku fékk ég til dæmis tölvupóst frá gömlum vini mínum þar sem sagði: "Aldrei var króna greidd til Háskólans úr Háskólasjóði Eimskips fyrr en nú þegar menn með ábyrgðartilfinningu og siðferðiskennd eignast Eimskipafélagið. Þeir þurfa hins vegar að sitja undir því daginn út og inn ásamt öðrum nýjum athafnamönnum að vera þjófar, þjófsnautar, mútuþegar, skattsvikarar eða eitthvað þaðan af verra. Athyglisvert er að enginn af gömlu svindlurunum er spurður af hverju misfarið hafið verið með Háskólasjóðinn áratugum saman?" Já, það er vissulega spurning. Nýir leikendur En þetta voru fínir menn, fínir með sig og nánast ósnertanlegir á þeim tíma; vanir því að allir bukkuðu sig og beygðu fyrir þeim. Aldrei töldu þeir sig þurfa að flenna sig í fjölmiðlum. Almúginn fór í bíltúra á Ægissíðuna til að reyna að sjá glitta í veislurnar inn um gluggana hjá þeim. Auðmenn nútímans standa okkur talsvert nær, þeir eru sífellt í fjölmiðlunum, ímyndin er þeim afskaplega dýrmæt. Hér er líka komin upp hlutabréfamarkaður og aðhald fjölmiðlanna er vísast nokkuð kröftugra. En þrátt fyrir að búið sé að skipta um leikendur í nánast öllum hlutverkum, getur maður ekki varist þeirri tilhugsun að sumt sé á vitlausri leið. Styrmir er allavega enn á sama stað með sín varnaðarorð um fákeppni og einokun - veitir kannski ekki af.
Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun
Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun