Viðskipti innlent

Mikill hiti á fasteignamarkaði

Mikill hiti er nú á fasteignamarkaði að því er fram kemur í hálffimmfréttum KB banka. Samkvæmt Fasteignamati ríksins hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 5,5% í janúar frá fyrri mánuði en fjölbýli hefur hækkað um rúm 25% á síðastliðnum tólf mánuðum. Ef litið er til sérbýlis þá hækkaði sú tegund fasteigna um 4% í verði í janúar frá fyrri mánuði, en alls um allt að 35% ef miðað er viðð síðastliðna tólf mánuði. KB banki segir ljóst að sá mikli hiti sem nú er á fasteignamarkaði sé bein afleiðing af lægri fjármögnunarkostnaði og auknu veðrými. Til að mynda hafi verð á sérbýli hækkað alls um 21% frá því í ágúst sl. þegar bankarnir hófu að bjóða íbúðalán til almennings. Sú mikla hækkun sem mælist á fasteignaverði í janúar mun koma inn af miklum þunga í vísitölu neysluverðs við næstu mælingu, samkvæmt KB banka, en rekja má um helming af hækkun vísitölu neysluverðs á síðastliðnum tólf mánuðum rakleiðis til þenslu á fasteignamarkaðnum. Þess má geta að húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs er reiknaður með 3. mánaða hlaupandi meðaltali og því munu áhrif þessarar hækkunar vara við næstu þrjár mælingar. Í kjölfarið má gera ráð fyrir því að verðbólga muni enn um sinn vera utan við efri þolmörk peningamálastefnunnar, þ.e. 4% verðbólguhraða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×