Innlent

Vill fækka ráðuneytum

Framsóknarmenn ræða stórfellda fækkun ráðuneyta. Árni Magnússon félagsmálaráðherra kynnti á flokksþingi þeirra í dag hugmynd um að fækka þeim úr þrettán niður í sex til átta. Fyrir flokksþinginu liggur ályktunartillaga um að ný skipan ráðuneyta taki gildi við upphaf næsta kjörtímabils. Árni Magnússon telur að Framsóknarflokkurinn eigi nú, þegar hann er í forystu ríkisstjórnarinnar, að hefja þessa vinnu og ljúka henni fyrir næstu þingkosningar.  Hann telur að forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti eigi að vera óbreytt en önnur ráðuneyti verði þessi: innaríkisráðuneyti sem færi með fjármál, framkvæmdir, dómsmál og fleira; atvinnuvegaráðuneyti þar sem iðnaður, viðskipti, landbúnaður, þjónusta, sjávarútvegur, ferðamál og annað sem viðkemur atvinnuvegum væri í einu ráðuneyti; velferðarráðuneyti þar sem félagsmál og heilbrigðismál kæmu saman; og að lokum menntamálaráðuneyti þar sem menntamál, menningarmál, íþróttir og annað sem þeim hlutum viðvíkur yrðu í einu ráðuneyti.  Við þetta myndi ráðherrastólum fækka. Árni vill hins vegar taka upp störf aðstoðarráðherra eins og er í mörgum nágrannalöndum okkar, og þá 2-3 í hverju ráðuneyti. „Það gæti sem best verið kjörni fulltrúar,“ sagði Árni Magnússon á flokksþinginu í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×