Innlent

Harður ágreiningur á flokksþinginu

Harður ágreiningur er um Evrópustefnu Framsóknarflokksins á flokksþinginu sem nú stendur yfir á Nordica-hótelinu í Reykjavík. Formaður og varaformaður flokksins eru ekki sammála um hvaða leið skuli fara og nú er unnið að því að finna málamiðlun. Halldór Ásgrímsson formaður var reiðubúinn að samþykkja ályktun þar sem segir meðal annars: „Á vettvangi Framsóknarflokksins skal strax hefjast vinna við mótun samningsmarkmiða og undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið.“ Guðni Ágústsson varaformaður er hins vegar algerlega mótfallinn þessu orðalagi og reyndar fleiri atriðum ályktunarinnar. Nú á að skoða málið betur. Halldór upplýsti í umræðum um þessi mál að Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, hefði hringt í sig í morgun og lýst yfir áhyggjum af því að Íslendingar væru á leiðinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Nánar verður fjallað um flokksþing framsóknarmanna í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×