Innlent

Fréttastofa í spennu og óvissu

44308EB8DA879FF60A49D48242068E7C1B6D6C04DE367DE0377F95DD90C7B8C1_1600x900

Starfsemi fréttastofu Ríkisútvarpsins fór fram í spennu og óvissu í gær vegna andstöðu starfsfólks RÚV við ráðningu nýs fréttastjóra útvarps, Auðuns Georgs Ólafssonar. Í viðtölum blaðsins við starfsmenn RÚV kom fram að þeir ólu þá von í brjósti að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri myndi draga ákvörðun sína um ráðninguna til baka. Menn töldu það þó alls óvíst. Úr því að útvarpsstjóri hefði ekki hreyft andmælum strax á fundi útvarpsráðs, gæti hann trauðla tekið af skarið nú. Þá ræddu menn þann möguleika að Auðunn Georg myndi draga sig til baka. Viðmælendur blaðsins töldu það vera farsælustu lausnina í stöðunni. Atburðir gærdagsins áttu að hefjast með því að Bogi Ágústsson forstöðumaður fréttasviðs Ríkisútvarpsins myndi kynna nýja fréttastjóra, Auðunn Georg Ólafsson á fundi með fréttamönnum klukkan 9.30. Ljóst varð þó að af þeirri kynningu myndi ekki verða þegar Félag fréttamanna á RÚV boðaði til fundar á sama tíma um málið. Kynningarfundinum var því frestað en jafnframt tilkynnt að hann yrði haldinn í dag. Fréttamennirnir sátu síðan á fundi fram eftir morgni og klukkan tíu var tilkynnt að útvarpsfréttir myndu falla niður af þeirri ástæðu. Að fundinum loknum sendu fréttamennirnir frá sér eftirfarandi ályktun: "Almennur félagsfundur í Félagi fréttamanna haldinn 10. mars lýsir vantrausti á Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra fyrir að ákveða að ráða Auðun Georg Ólafsson fréttastjóra útvarpsins. Ráðning hans er augljóslega á pólitískum forsendum einvörðungu og með henni er vegið að sjálfstæði og óhlutdrægni fréttastofunnar. Útvarpsstjóri hafði tækifæri til að standa vörð um hagsmuni Ríkisúrvarpsins og almennings en kaus að gera það ekki. Því nýtur hann ekki lengur trausts fréttamanna." 

Skorað á útvarpsstjóra

Enn var blásið til fundar út af fréttastjóramálinu í hádeginu í gær. Nú var það almennur starfsmannafundur RÚV. Af þeim sökum varð hádegisfréttatíminn ekki nema um 10 mínútna langur. Í lok hans tilkynnti þulur að vegna fundarhalda og truflana á störfum fréttamanna yrði hann ekki lengri að þessu sinni. Klukkan 12.30 hófst svo starfsmannafundurinn. Þar kynntu fréttamennirnir það sem fram hefði farið á þeirra fundi fyrr um morguninn. Mikil samstaða reyndist vera meðal starfsmannanna og samþykktu þeir með miklum meiri hluta, eða 93 prósentum atkvæða, að skora á Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra að endurskoða ákvörðun sína um nýlega ráðningu í starf fréttastjóra Útvarpsins. Síðan sagði: "Grundvallarverðmæti Fréttastofu útvarps felast í trausti almennings sem byggir á óhlutdrægum fréttaflutningi því þarf ráðning fréttastjóra að vera hafin yfir allan vafa um pólitíska íhlutun. Starfsmenn Ríkisútvarpsins lýsa yfir fullum stuðningi við yfirlýsingu Félags fréttamanna um að með nýlegri ráðningu sé vegið að sjálfstæði og óhlutdrægni fréttastofunnar. Með ákvörðun sinni virðast hvorki útvarpsráð né útvarpsstjóri hafa haft hagsmuni stofnunarinnar né almennings að leiðarljósi. "

Jón Gunnar Grétarsson formaður Félags fréttamanna sagði eftir þessi fundahöld, að sorglegt væri að til þeirrar samþykktar fréttamanna að lýsa yfir vantrausti á útvarpsstjóra hefði þurft að koma. "Honum var í lófa lagið að fara að mati forstöðumanns fréttasviðs og láta hið faglega sjónarmið ráða för," sagi hann. "Það var skorað á hann að gera það. En hann kýs að fara að vilja pólitísks kjörin útvarpsráðs og við erum afskaplega ósátt við það." Jón Gunnar undirstrikaði að fréttamenn RÚV hefðu lagt áherslu á að bregðast ekki sínu starfi, en sinna öryggishlutverki og almannaheill, þótt þessar truflanir hefðu komið til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×