Innlent

Aukning í árásum tölvuhakkara

Það hefur færst mikið í vöxt undanfarin misseri að brotist sé inn á vefsvæði íslenskra fyrirtækja. Í slíkum innbrotum er annað hvort verið að skemma viðkomandi vefsíðu eða að ná í viðkvæmar persónuupplýsingar. Sérfræðingar í öryggismálum á Netinu sem fréttastofa ræddi við í dag eru sammála um að öryggi á vefsíðum íslenskra fjármálastofnana sé gott en töluvert vanti upp á öryggi hjá almennum fyrirtækjum og stofnunum. Ingi Örn Geirsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs KB banka, segist mikið verða var við að reynt sé að brjótast inn kerfi bankans. Stundum eru gerðar margar tilraunir á dag og stundum færri og segir Ingi þetta oft fara eftir því hvernig tæknilegar lausnir frá Microsoft eru að gera sig. Bankarnir geta gert ákveðna hluti til að verjast innbrotstilraunum að hans sögn en afar mikilvægt er að notendur sjálfir passi upp á sína hluti, séu t.d. með nýjustu útgáfur af stýrikerfum og vöfrum, vírusvarnir, og athugi á vafra hvort þeir séu á öruggri vefsíðu. Theódór Ragnar Gíslason starfar sem sérfræðingur í innbrotsprófunum hjá KPMG. Hann vinnur við það að prófa öryggi á vefsíðum íslenskra fyrirtækja. Hann brýst inn á vefsíðurnar og bendir í kjölfarið á glufurnar sem þar eru. Hann segir yfirleitt frekar ábótavant í veföryggismálum íslenskra fyrirtækja en þó séu fjármálafyrirtækin undantekning, sem sé kannski skiljanlegt þar sem verið sé að höndla með peninga almennings í þeim tilvikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×