Skoðun

Erum við sóðar?

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þegar stórsöngvarinn Placido Domingo yfirgaf landið okkar fyrir örfáum dögum eftir að hafa stigið á það fæti í fyrsta sinn dró hann andann djúpt og dásamaði landið fyrir hreinleika sinn og kyrrð. Nokkuð sem við Íslendingar viljum alveg örugglega heyra og trúa.

Nú skulum við ekki ætla þessum dáða listamanni að fara með meðvituð falsyrði en ósjálfrátt varð manni hugsað til þess hvort hann væri nokkuð farinn að tapa sjón. Því þegar gengið er um stíga og ekið um stræti höfuðborgarinnar og nágrenni hennar þá blasir víða við þvílíkur sægur af rusli að til háborinnar skammar verður að teljast.

Áratuga gamlar sögur sem maður heyrði um ruslið sem birtist í byggð á Grænlandi þegar snjóa leysir á vorin koma manni ósjálfrátt í hug en þar hafa menn þó þá afsökun að snjórinn hylur ósómann yfir veturinn og sorphirðan er efiðleikum bundin. Hér er ekki því til að dreifa. Snjórinn sem heilsaði um jól kvaddi í janúar. Við höfum því ekkert slíkt okkur til málsbóta heldur er eingöngu um að kenna sinnuleysi okkar um nánasta umhverfi og undarlegri stefnu borgarinnar í hreinsunarmálum.

Verst er ástandið í grennd við söluturna og byggingarsvæði. Þar hafa plastumbúðir fengið að feykjast um eftir því sem vindar hafa blásið og virðast eiga að bíða þar eftir vorinu og unglingunum í bæjarvinnunni. Sem minnir á að sumsstaðar úti á landi hefur sá siður viðgengist að skólabörn úr ákveðnum bekkjum hafi ruslatínslu sem fjáröflunarstarf sem innt er af hendi á laugardagsmorgnum í hverri viku. Nokkuð sem væri hugsanlega hægt að taka upp í skólunum á höfuðborgarsvæðinu og gera að bæði uppeldislegum þætti og umhverfisvænum. Minnumst gömlu slagorðanna, götur eru ekki ruslafötur og hrein torg - fögur borg og förum eftir þeim.

Það er ánægjulegt þegar erlendir gestir eins og Placido Domingo fara lofsamlegum orðum um landið okkar og heita því að koma aftur til að njóta hreinleika þess og annarra dásemda. Látum hann og aðra í sömu erindagjörðum ekki koma fýluferð. Tökum til.

gun@frettabladid.is




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×