Hræðsluáróður og gróðurhúsaáhrif 16. mars 2005 00:01 Þótt ég hafi ekki góða reynslu af spennusagnahöfundinum Michael Crichton (Jurassic Parc, Disclosure, Rising Sun), lagði ég á mig að ná í eintak af nýjustu bók hans State of Fear. Það var ekki síst vegna þess að Ólafur Teitur Guðnason skrifaði í Viðskiptablaðið að þetta væri ein mikilvægasta bók seinni ára - gott ef ekki allra tíma. Bók Crichtons hefur verið kölluð fyrsta "neo-con" skáldagan. Hún er beinlínis skrifuð til að taka umhverfisverndarsinna í bakaríið - þá sem halda því fram að jörðinni stafi hætta af loftslagsbreytingum. Þetta byrjar ekki vel hjá Crichton, því strax í fjórða kafla eru nokkrar sögupersónurnar staddar á stað sem heitir "Stangfedlis" á hálendi Íslands í von um að finna merki hlýnunar. Þar hitta þau íslenskan vísindamann, dr. Per Einarsson, sem segir þeim að jöklarnir á Íslandi séu alls ekki að bráðna. Þvert á móti. Einn umhverfisverndarsinninn bregst ókvæða við og vill fela þessar upplýsingar. Sama dag las ég í Morgunblaðinu viðtal við Odd Sigurðsson, jarðfræðing hjá Orkustofnun, þar sem hann segir að jöklar á Íslandi bráðni sem aldrei fyrr. Ástæðan sé breytingar á koldíoxíði í andrúmsloftinu. Oddur segir gríðarlega mikilvægt að koma böndum yfir hitastig jarðar. --- --- --- Maður getur sagt að bók Crichtons eigi í nokkuð skræku samtali við kvikmyndina The Day after Tomorrow. Í báðum tilvikum eru sett upp mjög öfgafull dæmi. Í The Day After Tomorrow hérumbil eyðist lífið á jörðinni á örfáum dögum vegna skyndilegra loftslagsbreytinga. Í State of Fear eru harðsvíraðir og morðóðir umhverfissinnar orðnir þreyttir á að bíða eftir merkjum um gróðurhúsaáhrif, svo þeir ákveða að setja á svið náttúruhamfarir. Þarna finnur maður öll hin venjulegu stílbrögð Crichtons. Persónusköpun sem lætur Alistair MacLean líta út eins og ritsnilling. Karlar sem eru eins og Ken, kvenfólk sem er eins og Barbie. Ofboðslega stirð samtöl. Það er fullyrt að Crichton láti betur að skrifa um dínósára en konur. Inn í þetta blandar hann upplýsingum um gróðurhúsaáhrif, gröfum, línuritum og ræðubútum. Maður þrælast í gegn, en allt í allt verða þessar 600 blaðsíður óbærilega leiðinlegar aflestrar. Einna kjánalegust er aðalhetjan, John Kenner að nafni, sem fer um allt með vöðvastæltan Nepala sér til aðstoðar. Kenner er kynntur sem prófessor við MIT. En aðallega virðist hann hafa það hlutverk að fletta ofan af umhverfisverndarsinnum, bæði fræðilega og með því að setja þá í handjárn. Hins vegar kemur aldrei fram fyrir hvern hann eiginlega starfar. Eins og aðrar karlhetjur Crichtons er Kenner stuttklipptur, með hvöss augu og sterklegan kjálkasvip og mjög hermannlegur þar sem hann fer um með doktorspróf sín og handjárn. --- --- --- Það er mikið talað um hræðsluáróður þessa dagana - að sífellt sé verið að ala á ótta. Það mætti halda að náttúruverndarstefna sé mikið vandamál. Þó búum við í heimi þar sem dýrategundum fer mjög fækkandi, fiskistofnar eru að þurrkast út, skógum er eytt í stórum stíl og flest bendir til að hlýnun andrúmsloftsins sé stórkostlegt vandamál. Ótti selst auðvitað vel. En kannski er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig fremur en að fljóta sofandi að feigðarósi. Tökum til dæmis fuglaflensu. Þar heldur óttinn okkur vissulega við efnið. Læknar eru líka að reyna að einangra fleiri vírusa sem gætu borist úr dýrum í fólk . Ætli sé ekki almennt séð skárra að hafa nokkrar óttalegar fréttir í blöðunum en að fá yfir sig heimspest á borð við spænsku veikina? --- --- --- En auðvitað má skoða þær efasemdir sem Crichton setur fram. Ég er jafnvel að hugsa um að taka bókina fyrir í þætti hjá mér eftir páska. Crichton hefur hins vegar áður reynst vera nokkuð vænisjúkur í verkum sínum: Í Disclosure var sett fram sú kenning að konur notuðu ásakanir um kynferðislega áreitni til að kúga karla. Í Rising Sun var meginhugmyndin að Japanir væru að eignast Bandaríkin. Maður hefur tæplega séð þetta verða að veruleika. --- --- --- Arnar Þór Stefánsson skrifar ágæta grein um fréttastjóramálið á vef Heimdallar, frelsi.is. Arnar segir meðal annars: "Ráðning fréttastjóra Útvarps er klassískt dæmi um það hvernig á að fara að þegar ómálefnaleg ráðning hins opinbera er sett í málefnalegan búning. Búið er til leikrit. Ráðningarferlið er skothelt á pappírunum en löngu er búið að ráðstafa hinum pólitíska bitling til þess sem velþóknun er höfð á. Aðrir umsækjendur sækja um í góðri trú. Málsmeðferðin virðist vönduð. Umsækjendur eru kallaðir í viðtal og allt virðist slétt og fellt. Mælt er með nokkrum sem þykja hæfastir. Svo er gæðingurinn, sem ekki var í hópi hæfastra að mati álitsgjafa, ráðinn og ráðningin rökstudd. Rökstuðningurinn virðist góðra gjalda verður en er í raun fráleitur." --- --- --- Bendi svo á að Karl Sigurbjörnsson, biskup yfir Íslandi, verður gestur hjá mér í Silfri Egils á sunnudag. Ég ætla meðal annars að ræða við hann um kristindómskennslu í skólum og önnur uppeldismál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Mest lesið Með háskólapróf til að snýta og skeina? Hildur Sólmundsdóttir Skoðun Hérna eru aukalega 6000 íbúðir. Veskú Ævar Rafn Hafþórsson Skoðun Við þekkjum öll einn alkóhólista - hættum að stinga höfðinu í sandinn Bryndís Rós Morrison Skoðun Staðreyndir um jafnlaunavottun Bryndís Elfa Valdemarsdóttir ,Jón Fannar Kolbeinsson Skoðun Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun Missum ekki af orkuskiptalestinni Tómas Þór Þórðarson Skoðun Börnum fórnað fyrir bætt kjör Guðný Hrafnkelsdóttir Skoðun Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Fimm ástæður fyrir að vextirnir eru á réttri leið Konráð S. Guðjónsson Skoðun Fastur heimilislæknir sem þekkir þig Kristrún Frostadóttir Skoðun
Þótt ég hafi ekki góða reynslu af spennusagnahöfundinum Michael Crichton (Jurassic Parc, Disclosure, Rising Sun), lagði ég á mig að ná í eintak af nýjustu bók hans State of Fear. Það var ekki síst vegna þess að Ólafur Teitur Guðnason skrifaði í Viðskiptablaðið að þetta væri ein mikilvægasta bók seinni ára - gott ef ekki allra tíma. Bók Crichtons hefur verið kölluð fyrsta "neo-con" skáldagan. Hún er beinlínis skrifuð til að taka umhverfisverndarsinna í bakaríið - þá sem halda því fram að jörðinni stafi hætta af loftslagsbreytingum. Þetta byrjar ekki vel hjá Crichton, því strax í fjórða kafla eru nokkrar sögupersónurnar staddar á stað sem heitir "Stangfedlis" á hálendi Íslands í von um að finna merki hlýnunar. Þar hitta þau íslenskan vísindamann, dr. Per Einarsson, sem segir þeim að jöklarnir á Íslandi séu alls ekki að bráðna. Þvert á móti. Einn umhverfisverndarsinninn bregst ókvæða við og vill fela þessar upplýsingar. Sama dag las ég í Morgunblaðinu viðtal við Odd Sigurðsson, jarðfræðing hjá Orkustofnun, þar sem hann segir að jöklar á Íslandi bráðni sem aldrei fyrr. Ástæðan sé breytingar á koldíoxíði í andrúmsloftinu. Oddur segir gríðarlega mikilvægt að koma böndum yfir hitastig jarðar. --- --- --- Maður getur sagt að bók Crichtons eigi í nokkuð skræku samtali við kvikmyndina The Day after Tomorrow. Í báðum tilvikum eru sett upp mjög öfgafull dæmi. Í The Day After Tomorrow hérumbil eyðist lífið á jörðinni á örfáum dögum vegna skyndilegra loftslagsbreytinga. Í State of Fear eru harðsvíraðir og morðóðir umhverfissinnar orðnir þreyttir á að bíða eftir merkjum um gróðurhúsaáhrif, svo þeir ákveða að setja á svið náttúruhamfarir. Þarna finnur maður öll hin venjulegu stílbrögð Crichtons. Persónusköpun sem lætur Alistair MacLean líta út eins og ritsnilling. Karlar sem eru eins og Ken, kvenfólk sem er eins og Barbie. Ofboðslega stirð samtöl. Það er fullyrt að Crichton láti betur að skrifa um dínósára en konur. Inn í þetta blandar hann upplýsingum um gróðurhúsaáhrif, gröfum, línuritum og ræðubútum. Maður þrælast í gegn, en allt í allt verða þessar 600 blaðsíður óbærilega leiðinlegar aflestrar. Einna kjánalegust er aðalhetjan, John Kenner að nafni, sem fer um allt með vöðvastæltan Nepala sér til aðstoðar. Kenner er kynntur sem prófessor við MIT. En aðallega virðist hann hafa það hlutverk að fletta ofan af umhverfisverndarsinnum, bæði fræðilega og með því að setja þá í handjárn. Hins vegar kemur aldrei fram fyrir hvern hann eiginlega starfar. Eins og aðrar karlhetjur Crichtons er Kenner stuttklipptur, með hvöss augu og sterklegan kjálkasvip og mjög hermannlegur þar sem hann fer um með doktorspróf sín og handjárn. --- --- --- Það er mikið talað um hræðsluáróður þessa dagana - að sífellt sé verið að ala á ótta. Það mætti halda að náttúruverndarstefna sé mikið vandamál. Þó búum við í heimi þar sem dýrategundum fer mjög fækkandi, fiskistofnar eru að þurrkast út, skógum er eytt í stórum stíl og flest bendir til að hlýnun andrúmsloftsins sé stórkostlegt vandamál. Ótti selst auðvitað vel. En kannski er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig fremur en að fljóta sofandi að feigðarósi. Tökum til dæmis fuglaflensu. Þar heldur óttinn okkur vissulega við efnið. Læknar eru líka að reyna að einangra fleiri vírusa sem gætu borist úr dýrum í fólk . Ætli sé ekki almennt séð skárra að hafa nokkrar óttalegar fréttir í blöðunum en að fá yfir sig heimspest á borð við spænsku veikina? --- --- --- En auðvitað má skoða þær efasemdir sem Crichton setur fram. Ég er jafnvel að hugsa um að taka bókina fyrir í þætti hjá mér eftir páska. Crichton hefur hins vegar áður reynst vera nokkuð vænisjúkur í verkum sínum: Í Disclosure var sett fram sú kenning að konur notuðu ásakanir um kynferðislega áreitni til að kúga karla. Í Rising Sun var meginhugmyndin að Japanir væru að eignast Bandaríkin. Maður hefur tæplega séð þetta verða að veruleika. --- --- --- Arnar Þór Stefánsson skrifar ágæta grein um fréttastjóramálið á vef Heimdallar, frelsi.is. Arnar segir meðal annars: "Ráðning fréttastjóra Útvarps er klassískt dæmi um það hvernig á að fara að þegar ómálefnaleg ráðning hins opinbera er sett í málefnalegan búning. Búið er til leikrit. Ráðningarferlið er skothelt á pappírunum en löngu er búið að ráðstafa hinum pólitíska bitling til þess sem velþóknun er höfð á. Aðrir umsækjendur sækja um í góðri trú. Málsmeðferðin virðist vönduð. Umsækjendur eru kallaðir í viðtal og allt virðist slétt og fellt. Mælt er með nokkrum sem þykja hæfastir. Svo er gæðingurinn, sem ekki var í hópi hæfastra að mati álitsgjafa, ráðinn og ráðningin rökstudd. Rökstuðningurinn virðist góðra gjalda verður en er í raun fráleitur." --- --- --- Bendi svo á að Karl Sigurbjörnsson, biskup yfir Íslandi, verður gestur hjá mér í Silfri Egils á sunnudag. Ég ætla meðal annars að ræða við hann um kristindómskennslu í skólum og önnur uppeldismál.
Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun
Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun