Innlent

Börn vöruð við ljósabekkjum

Landlæknisembættið, geislavarnir ríkisins, Krabbameinsfélagið og Félag íslenskra húðlækna hafa sent foreldrum og forráðamönnum fermingarbarna póstkort þar sem bent er á hætturnar sem fylgja því að ungt fólk fari í ljósabekki. Þá hefur heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið vakið sérstaka athygli á viðvörum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem segir að ljósabekkir eigi þátt í mikilli fjölgun húðkrabbameinstilfella. Segir stofnunin að börn yngri en 18 ára eigi ekki að nota ljósabekki þar sem ungu fólki sé hættara við því en öðrum að fá húðkrabbamein við notkun þeirra. Í umfjöllun sem stofnunin birti nýverið um málið á heimasíðu sinni er meðal annars vakin athygli á því hve tíðni húðkrabbameina hefur aukist gríðarlega á síðustu áratugum, ekki síst í Bandaríkjunum og Norður Evrópu. Í umfjöllun WHO er vakin athygli á reglum sem sumar þjóðir hafa sett til að takmarka notkun ljósabekkja, einkum hjá ungu fólki. Stofnunin hvetur þjóðir til að setja slíkar reglur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×