Innlent

Bætir GSM-kerfi sitt á Vesturlandi

Og Vodafone hefur tekið í notkun GSM-senda í Hvalfjarðargöngum, en um er að ræða lokahluta verkefnis sem staðið hefur yfir frá því í fyrra og felur í sér helmingsfjölgun á sendum á GSM-dreifikerfi Og Vodafone á Vesturlandi. Í tilkynningu frá félaginu segir að markmiðið hafi verið að efla og þétta kerfið á þessu landssvæði, sérstaklega við þjóðveg 1. Þá var einnig lögð áhersla á að bæta samband við sumarbústaðasvæði í Lundareykjadal, Skorradal, Húsafelli og á fleiri stöðum, að sögn Arnar Snorrasonar, framkvæmdastjóra fjarskiptasviðs Og Vodafone. Félagið hefur enn fremur eflt skilyrði á Akranesi og í nágrenni með uppsetningu á tveimur sendum til viðbótar en það stefnir að aukinni markaðshlutdeild á því svæði. Ástæða þess að hafist var handa við þéttingu á GSM-dreifikerfi félagsins á Vesturlandi má rekja til þess að Tal, sem var eitt þriggja fyrirtækja sem sameinaðist undir nafni Og Vodafone, hafði ekki reikisamning við Símann á þessu svæði. Hins vegar hafði Íslandssími, sem sameinaðist einnig undir nafni Og Vodafone, reikisamning við Símann á fyrrnefndu svæði. Örn segir að félagið hafi því ákveðið að segja upp þeim samningi og setja upp eigin senda til þess að bæta þjónustu allra viðskiptavina sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×