Innlent

Stígamót óttast afleiðingarnar

Talskona Stígamóta segist óttast að dómur yfir tveimur stúlkum, sem lugu nauðgun upp á varnarliðsmann, ýti undir ranghugmyndir um að vitni segi almennt ósatt í nauðgunarmálum. Héraðsdómur Vesturlands dæmdi átján ára stúlka í sjö mánaða fangelsi fyrir að hafa borið ljúgvitni, með jafnöldru sinni og vinkonu, sem kærði ungan varnarliðsmann fyrir að hafa nauðgað sér í fyrra. Sú stúlka hlaut níu mánaða fangelsisdóm. Þær höfðu átt einhver orðaskipti við varnarliðsmanninn rétt fyrir utan Akranes í fyrra sem leiddi til þess að nokkru síðar kærði önnur stúlkan hann fyrir nauðgun og hin bar vitni um að það væri rétt. Þegar málið var tekið fyrir var varnarliðsmaðurinn farinn í frí til Bandaríkjanna en bandaríska herlögreglan hafði uppi á honum og flutti hann hingað til lands. Aðeins nokkrum klukkustundum áður en rétta átti yfir honum barst sýslumanni vísbending um að ekki væri allt með felldu. Þegar gengið var á stúlkurnar kom í ljós að kæran átti ekki við rök að styðjast og féll málið þar með um sjálft sig. Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir málið geta haft slæm áhrif á nauðgunarmál í framtíðinni. Það sé til þess fallið að styrkja þær ranghugmyndir sem réttarkerfið virðist hafa - að fólk sé almennt að koma með rangar sakir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×