Sport

John Stockton í brons

Larry Miller, eigandi körfuboltaliðs Utah Jazz í NBA deildinni hefur afhjúpað bronsstyttu af John Stockton, fyrrum leikmanni félagsins fyrir utan Delta Center, heimavöll Jazz. Stockton á NBA metið í stoðsendingum og stolnum boltum og er jafnan talinn einn besti leikstjórnandi sem uppi hefur verið. Hann lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum síðan og hefur liðið ekki verið svipur hjá sjón síðan. Styttan af Stockton er vel á þriðja metra á hæð og vegur um hálft tonn. Á næsta ári verður gerð önnur svipuð stytta af Karl Malone, sem var ásamt Stockton, kjölfestan í liði Utah í nær tvo áratugi og fannst eiganda liðsins við hæfi að heiðra leikmennina með þessum hætti fyrir framlag þeirra til liðsins og samfélagsins í heild. John Stockton var hógværðin uppmáluð þegar styttan var afhjúpuð og sagði hana í sínum huga snúast um annað og meira en sig.  "Mér finnst ekki koma fram á þessari styttu hvað allt liðið fórnaði sér kvöld eftir kvöld til að ná árangri," sagði hinn auðmjúki leikmaður, sem sló á létta strengi þegar hann var spurður hvort honum fyndist styttan ná útliti hans vel. "Vöðvarnir hefðu mátt vera stærri," sagði stoðsendingakóngurinn glottandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×