Viðskipti innlent

Varað við sænsku fyrirtæki

Samtök atvinnulífsins vara á heimasíðu sinni við sænska félaginu Nordisk Industri, sem hefur skrifað íslenskum fyrirtækjum og óskað eftir almennum upplýsingum um þau. Samtökin telja að þarna séu svikahrappar á ferð og segja að nokkuð hafi borið á því að að íslenskum fyrirtækjum hafi borist erindi frá sænska fyrirtækinu þar sem óskað er skriflegrar staðfestingar á faxi á upplýsingum, meðal annars um símanúmer og heimilisfang. Bent er á að bíti fyrirtæki á agnið berist þeim í kjölfarið reikningar frá sænska fyrirtækinu fyrir birtingar á auglýsingum eða á upplýsingum í gagnabönkum með vísan í smátt letur á umræddu faxi. Samkvæmt heimildum Samtaka atvinnulífsins hafa sölumenn sænska fyrirtækisins gjarnan þann háttinn á að senda erindin beint á tiltekna starfsmenn og fylgja þeim eftir með ítrekuðum símtölum en fái þeir ekki umbeðna staðfestingu beina þeir sama erindi til annarra starfsmanna í sama fyrirtæki. Samtök atvinulífsins segja nokkur dæmi um að íslensk fyrirtæki hafi bitið á agnið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×