Sport

ÍBV komið í undanúrslitin

Lið ÍBV úr Vestmannaeyjum tryggði sér í kvöld þáttökurétt í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik, þegar liðið lagði Fram með eins marks mun í oddaleik í Eyjum, 25-24. Viðureignir liðanna hafa verið ótrúlega spennandi og aðeins eitt mark skildi liðin að í öllum þremur leikjunum. Skemmst er að minnast annars leiks liðanna, sem fór í sögulega vítakeppni. Það var Tite Kalandaze sem var hetja Eyjamanna í leiknum í kvöld, en hann skoraði sigurmark heimamanna í lokin og tryggði sigurinn. Markahæstir hjá ÍBV voru þeir Svavar Vignisson með 7 mörk og þeir Kalandaze og Samúel Ívar Árnason skoruðu 5 mörk hvor. Í liði gestanna var Jón Björgvin Pétursson markahæstur með 10 mörk og Ingólfur Ragnar Axelsson kom næstur með 7 mörk. ÍBV mætir ÍR í undanúrslitunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×