Sport

Sacramento vann LA Lakers

Lið Sacramento Kings er að finna taktinn sóknarlega eftir að miklar breytingar voru gerðar á liðinu í kjölfar leikmannaskiptanna sem sendu Chris Webber til Philadelphia 76ers. Liðið vann góðan sigur á Los Angeles Lakers nú í kvöld, 124-105 og halda fast í fimmta sætið í Vesturdeildinni, sem eins og staðan er í dag, yrði til þess að liðið mætti Dallas Maverics fjórða árið í röð í úrslitakeppninni. Kings eru að skora grimmt þessa dagana og þetta var í fimmta skipti í síðustu sjö leikjum sem liðið skorar 118 stig eða meira. Kenny Thomas átti einn sinn besta leik á ferlinum í kvöld, en hann skoraði 32 stig og hirti 14 fráköst og Mike Bibby bætti við 24 stigum og 8 stoðsendingum. Sacramento lagði grunninn að sigrinum með rosalegum spretti í þriðja leikhlutanum, þar sem þeir skoruðu hvorki meira né minna en 43 stig. Kobe Bryant var atkvæðamestur í liði gestana frá Hollywood með 18 stig og 6 stoðsendingar, en lék með miklar umbúðir á löppinni vegna meiðsla sem eru að hrjá hann þessa dagana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×