Sport

NBA - Spurs aftur í framlengingu

San Antonio Spurs lentu annan daginn í röð í tvöfaldri framlengingu í nótt, þegar þeir heimsóttu sjóðheitt lið Golden State Warriors. Rétt eins og í fyrri leiknum, náðu Spurs að hafa sigur og sækja nú fast á hæla Phoenix Suns í baráttunni um efsta sætið í Vesturdeildinni. Franski leikstjórnandinn Tony Parker var stigahæstur í liðið Spurs í nótt í 136-134 sigri á Warriors, en hann skoraði 35 stig og átti 12 stoðsendingar. Leikurinn snerist upp í einvígi milli Parker og Baron Davis hjá Warriors, en hann var með 38 stig og 9 stoðsendingar. Davis tryggði Golden State fyrstu tvær framlengingarnar með skoti á síðustu sekúndum, en það var Parker sem gerði svo sigurkörfu Spurs rétt fyrir leikslok. San Antonio var án þriggja byrjunarliðsmanna í leiknum, en þeir Tim Duncan, Manu Ginobili og Rasho Nesterovic voru allir frá vegna meiðsla. New York Knicks þurftu líka framlengingu til að afstýra lengstu taphrinu félagsins í 20 ár, en eftir að hafa tapað níu leikjum í röð náðu þeir loksins að vinna og það gegn Indiana Pacers á útivelli. Jamal Crawford var stigahæstur í liði Knicks með 32 stig, en gamla brýnið Reggie Miller skoraði allra mest á vellinum, 34 stig. Indiana hafði fyrir leikinn unnið 6 leiki í röð, en Michael Sweetney var hetja gestanna þegar hann fylgdi eftir misheppnuðu skoti Stephon Marbury á lokasekúndum framlengingar og tryggði Knicks sigurinn. Portland sigraði New Orleans á útivelli 90-81 og afstýrðu þar með tveimur löngum taphrinum, en liðið hafði tapað 7 leikjum í röð og 10 útileikjum í röð áður en þeir lögðu arfa slakt og meiðslum hrjáð lið Hornets. Shareef Abdur-Rahim var atkvæðamestur í Portland með 25 stig og 10 fráköst. Að lokum tryggði Memphis stöðu sína í áttunda sæti Vesturdeildarinnar með nokkuð auðveldum sigri á Charlotte Bobcats 102-95, þar sem Shane Battier fór mikinn og skoraði 25 stig og hirti 11 fráköst. Þetta var fimmti sigur Memphis Grizzlies í síðustu sex leikjum, en hinsvegar áttundi tapleikur Charlotte í röð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×