Vafasamar afsökunarbeiðnir
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag eru rifjuð upp mál gyðinga sem komu hingað fyrir heimstyrjöldina og var vísað úr landi. Því er velt upp hvort Íslendingar eigi kannski að biðja afsökunar á þessu - rétt eins og Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, er sagður íhuga afsökunarbeiðni vegna brottrekstrar nítján gyðinga frá Danmörku sem enduðu í útrýmingarbúðum. Fréttablaðið slær því upp eins og miklum tíðindum að Gyðingum hafi verið vísað frá Íslandi. Auðvitað er sjálfsagt að minna reglulega á þessa dapurlegu sögu - en þetta hefur margsinnis komið fram, meðal annars hjá sagnfræðingunum Einari Heimissyni, Þór Whitehead og Snorra Bergssyni. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra virðist heldur ekki spenntur fyrir afsökunarbeiðni - segir að menn verði að fara "varlega í að biðjast afsökunar á atburðum sem gerðust fyrir löngu". Þetta er laukrétt hjá Halldóri. Af þessu tilefni vil ég birta brot úr grein sem ég ritaði fyrir fyrir fimm árum, en þá var fyrst umræða um að danska stjórnin bæði afsökunar vegna gyðinga sem voru reknir úr landi. Þá sagði Poul Nyrup Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra, nei. --- --- --- Hér er greinarstúfurinn: "Ef danskur maður, segjum til dæmis danskur ferðamaður á Íslandi, bæði mig afsökunar á einokunarversluninni, þá yrði ég líklega heldur forviða. Svo myndi ég komast að þeirri niðurstöðu að það væri ekki að marka manninn. Það myndi ekki breyta neinu þótt þetta væri sjálfur forsætisráðherra Danmerkur. Hann bæri nákvæmlega enga ábyrgð á einokunarversluninni og því væri afsökunarbeiðnin vita merkingarlaus. En stórar afsökunarbeiðnir eru í tísku: Páfinn er að biðja afsökunar á öllum misgjörðum kristinnar kirkju. Bill Clinton biður blökkumenn afsökunar á þrælahaldinu. Þess er krafist að Elísabet Englandsdrottning biðji frumbyggja í Ástralíu afsökunar. Afsökunarbeiðni Tonys Blair til Íra þykir ekki nógu einlæg. Poul Nyrup Rasmussen á að biðja fyrirgefningar á því að danskir embættismenn seldu gyðinga í hendur þýskra nasista, en hann þráast við. Þetta er eins og nýjasti samkvæmisleikurinn. Allir verða að spila með. Þetta er líka alveg óþrjótandi - ef maður skimar aftur í aldir eru svo margir sem þarf að biðja fyrirgefningar. En þetta er ekki bara leikur, í þessu felst varhugaverð hugmynd: Að maður geti borið ábyrgð á einhverju sem maður hefur ekki gert sjálfur, að til sé eitthvað sem heiti hópsekt, samfélagsleg eða sammannleg sekt. Í rauninni er þetta sama hugmyndin og olli því að gyðingar voru ofsóttir í gegnum aldirnar fyrir að hafa drepið Messías - og af svipuðum toga er líka hin heldur hvimleiða hugmynd kristninnar um erfðasyndina. Vorið 1987 tók ég viðtal við nasistaveiðarann Simon Wiesenthal í Vínarborg, einhvern merkilegasta mann sem ég hef hitt. Við ræddum meðal annars um samfélagssekt og hann sagði: "Í mínum huga er sekt einstaklingsbundin en leggst ekki á heilar þjóðir eða samfélög. Ég mun aldrei ásaka gervalla þýsku þjóðina, rétt eins og ég þoli ekki að heyra gervalla þjóð gyðinga verða fyrir ásökunum. Gyðingar hafa orðið fyrir barðinu á svokallaðri þjóðarsekt í 2000 ár. Sem gyðingur verð ég að vera afar varkár að gjalda ekki aftur í sömu mynt." (Helgarpósturinn, 15. apríl 1987) Það eru bara til sekir einstaklingar. Þessar afsökunarbeiðnir ráðamanna eru út í hött. Þeir hafa ekkert til að biðjast afsökunar á - og þótt þeir geri það er það marklaust hjal. Langflestir Þjóðverjar sem nú eru á lífi bera enga ábyrgð á grimmdarverkum nasista, Clinton er ekki ábyrgur fyrir þrælahaldi, Tony Blair ekki fyrir ógnarstjórn Englendinga á Írlandi - Jóhannes Páll páfi hefur ekkert með það að gera að Vatíkanið brást gyðingum í stríðinu. Þessir valdamenn geta sagst vera harmi slegnir yfir skelfingaratburðum; þeir geta sagt að sagan sé hryggileg og hún megi ekki endurtaka sig, en þeir geta ekki beðist afsökunar og það á heldur ekki að krefjast þess." --- --- --- Í gyðingaofsóknum seinni heimstyrjaldar eru fáir hughreystandi atburðir. Einn þeirra er þegar Danir tóku saman höndum um að bjarga gyðingum með þeim afleiðingum að frá Danmörku var flutt langsamlega lægst hlutfall gyðinga í útrýmingarbúðir. Þetta var stórkostlegt afrek sem lýsir upp þessa myrku tíma. Danska stjórnin lét sig líka varða örlög gyðinga sem voru fluttir burt, fylgdist meðal annars með afdrifum þeirra í Theresienstadt, og bjargaði þannig mörgum lífum. Afleiðingin var sú að talið er að einungis 116 af 7500 dönskum gyðingum hafi týnt lífi í helförinni. Um þetta og tölu brottfluttra gyðinga frá öðrum löndum má fræðast á vef The Danish Center for Holocaust and Genocide Studies, en einnig má benda á frásögn af þessu á vefnum Auschwitz. Og ennfremur grein úr The Financial Times þar sem er gerður samanburður á afdrifum gyðinga í Danmörku og Hollandi – í löndum sem teljast mjög lík að flestu leyti. Meira en þrír fjórðuhlutar hollenskra gyðinga fórust í helförinni. --- --- --- Það er gott að heyra Georg W. Bush setja ofan í við Ariel Sharon. Bara spurning hversu mikill hugur fylgir máli? Sharon segir að geti brotist út borgarastríð ef reynt verður að rýma byggðir landræningja á Vesturbakkanum – þetta er enn eitt skálkaskjól Ísraelsstjórnar. Nú er lógíkin: Við getum ekki farið, annars verður innanlandsófriður. Líf forsætirsáðherrans kann jafnvel að vera í hættu. Svona súpa menn líka seyðið af því þegar ýtt er undir öfgaöfl í vafasömum pólitískum tilgangi. Það hefur Likudflokkur Sharons gert í marga áratugi. Nú er orðið erfitt að hemja öfgasinnana; ófreskjan er komin út úr búrinu. Þetta er sjálfskaparvíti sem sannar hið fornkveðna: ofbeldi getur af sér ofbeldi. Á forsíðu Silfurs Egils