Lífið

Glerlistaverk eftir pabba

Hallveig Rúnarsdóttir, söngkona, á listaverk eftir pabba sinn sem hún heldur mikið upp á. "Pabbi minn hefði helst viljað vera myndlistarmaður en það þótti nú ekki vera alvöru vinna í þá daga og hann lærði til rafvirkja og vann við það í fjörutíu og fimm ár. Þegar hann fór á eftirlaun lét hann drauminn rætast og skellti sér á námskeið til að læra að vinna í gler. Þar unnu flestir eftir fyrirfram ákveðnum mynstrum en það átti ekki við pabba heldur vildi hann gera verkin upp úr sér. Síðan hefur hann gert mörg glerlistaverk sem eru afskaplega falleg." Hallveig og systkini hennar eiga því ekki langt að sækja listfengi sitt en þau eru öll starfandi tónlistarmenn. Þau eiga líka öll glerlistaverk eftir pabba sinn. Myndin hennar Hallveigar heitir Kuml og er gerð úr skornu lituðu gleri. "Hún hangir í stofuglugganum mínum og það er svo fallegt að sjá hvernig sólin og dagsljósið skín í gegn." Hallveig sem er ein af okkar bestu sópransöngkonum er alltaf með eitthvað skemmtilegt á prjónunum og núna er hún að æfa sópranhlutverkið í Carmina Burana sem flutt verður af söngsveitinni Fílharmoníu í Langholtskirkju þann 24. og 26. apríl. "Ég hlakka mjög til enda er þetta alveg einstaklega falleg tónlist. Svo er ýmislegt á döfinni annað sem kemur í ljós í fyllingu tímans."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×