Sport

Pál langaði að finna hungrið aftur

Páll Kristinsson, landsliðsmaður og leikmaður Njarðvík í Intersportdeildinni í körfuknattleik, er genginn til liðs við Grindavík fyrir næsta tímabil. Kemur ákvörðunin mörgum í opna skjöldu sérstaklega í ljósi þess að Páll hefur leikið alla tíð með Njarðvík, 11 tímabil alls.  "Mig langaði að prófa að breyta til," sagði Páll í samtali við Fréttablaðið. Páll sagði megintilganginn með að flytja sig um set væri að finna hungrið á nýjan leik. Samkvæmt heimasíðu Njarðvíkur vonast Páll til að eiga afturkvæmt í græna búning Njarðvíkurliðsins að ári liðnu en sögur hafa verið á kreiki um að umgjörð og þjálfaramál nýliðins tímabils hafi ekki verið Páli að skapi. "Ég fann mig ekki á síðasta ári og því upplagt að prófa eitthvað nýtt. Ég hef ekki planað neitt fram í tímann," sagði Páll. Að sögn Páls eru spennandi breytingar framundan hjá Grindvíkingum en hann vildi annars lítið tjá sig um þau mál. "Það er ýmislegt í gangi en ekki allt frágengið."Páll hefur lengi þótt einn besti framherji landsins og hóf tímabilið síðastliðið haust með miklum látum. Hann skoraði 20,4 stig, tók 7,6 fráköst, gaf 3,6 stoðsendingar og nýtti 67% skota sinna í fyrstu fimm leikjum tímabilsins. Eftir það lá leiðin niður á við en þess má geta að Anthony Lackey bættist í hópinn í sjötta leik deildarinnar og tók því töluvert frá Páli hvað framlag snertir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×