Sport

Haukar sigursælir

Það er óhætt að fullyrða að Haukar séu að vinna fyrirmyndarstarf í kvennakörfuboltanum enda streyma meistaratitlarnir til Hafnarfjarðar og menn þar á bæ eru að leggja grunninn að sigursælu meistaraflokksliði næstu árin. Meistaraflokkslið félagsins er það langyngsta í deildinni en náði engu að síður að vinna bikarmeistaratitilinn og komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn. Í yngri flokkunum er gengi Hauka í vetur nær óslitin sigurganga. Alls urðu Haukastelpurnar Íslandsmeistarar í fjórum af sex flokkum og í þeim fimmta, 8. flokki kvenna, unnu þær alla leiki sína í úrslitunum en töpuðu titlinum til Njarðvíkur þar sem veikindi leikmanna kostuðu það að félagið gat ekki teflt fram fullu liði og náð þar með í aukastig sem lið fá fyrir að nota alla leikmenn sína. Haukar unnu tvöfalt, Íslands- og bikarmeistaratitil, í tveimur elstu flokkunum (unglingaflokki og 10. flokki) og Íslandsmeistaratitilinn kom einnig í hús í 9. flokki kvenna. Sigursælasti leikmaður Hauka í vetur er hinn tólf ára fyrirliði 7. flokks kvenna, Guðbjörg Sverrisdóttir, sem varð Íslandsmeistari með sínum flokki en einnig með 9. og 10. flokki auk þess að verða í öðru sæti með 8. flokknum. Guðbjörg er systir Helenu Sverrisdóttur, sem varð Íslands- og bikarmeistari með unglingaflokki sem og bikarmeistari með meistaraflokknum. Þjálfarar flokkanna sem urðu meistarar í vetur hjá Haukum eru Ágúst Björgvinsson (Meistaraflokkur, unglingaflokkur og 7. flokkur) og Yngvi Gunnlaugsson (10. flokkur, 9. flokkur og 7. flokkur) en Reynir Kristjánsson stýrði 9. og 10. flokknum til sigurs á Íslandsmótinu í forföllum Yngva í vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×