Innlent

Þorskkvótinn ekki aukinn

Stofnavísitala þorsks lækkaði um 16 prósent frá mælingu á síðasta ári og dreifing stofnsins bendir til þess að árgangurinn frá því í fyrra sé mjög lélegur. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir þetta þýða að kvótinn verði ekki aukinn á næsta ári. Hafrannsóknarstofnunin stóð að stofnmælingu á Íslandsmiðum dagana 1. mars til 2. apríl síðastliðins. Alls var togað á 550 rallstöðvum allt í kringum landið. Við mælingarnar kom í ljós að stofnvísitala þorsks lækkaði um 16 prósent frá mælingunni 2004 en óvissan í mælingunni var minni en þá þegar hún var óvenju mikil. Svokallaðar lengdardreifingar þorsksins benda til þess að árangurinn 2004 sé mjög lélegur, árgangurinn 2003 frekar lélegur og árgangurinn 2001 mjög lélegur, eins og það er orðað í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnuninni. Enn fremur kemur fram að árgangurinn 2002 hafi verið nærri meðallagi. Færri svokallaðir einstaklingar mælast nú en áður. Árni Mathiessen segir að þessi tíðindi þýði ekki endilega að kvótinn fyrir næsta fiskveiðiár muni minnka því það sem hafi verið mælt þarna séu fleiri árangangar en séu inni í veiðistofninum. Vissulega hefði verið betra að mælingar hefðu verið betri en það sem sé nýtt í mælingunum sé að yngsti árgangurinn mælist lítill og minni en hann hafi vonast eftir. Hins vegar staðfesti mælingin líka að árgangurinn 2001 sé mjög lítill og það þýði að kvótinn verði ekki aukinn alveg á næstunni. Of snemmt sé þó að segja til um hvort minnka þurfi kvótann á næsta ári, en inn í það komi fleiri þættir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×