Erlent

Flóttamenn efstir á blaði

Flóttamenn og hælisleitendur eru efst á blaði í kosningabaráttunni í Bretlandi. Íhaldsmenn leggja ofuráherslu á að fækka innflytjendum og Blair forsætisráðherra tekur orðið í sama streng. Tony Blair kynnti útlendingastefnu sína í morgun. Innflytjendur og flóttamenn eru efst á blaði í kosningabaráttunni og óttast margir að með umræðunni sé kynnt undir kynþáttafordómum. Íhaldsflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á þennan málaflokk og segir Michael Howard, leiðtogi flokksins, að straumur fólks til Bretlands sé kominn úr skorðum og að grípa verði í taumana. Howard, sem er sonur innflytjenda, vill setja kvóta á fjölda þeirra, fjölga landamæravörðum og koma á laggirnar miðstöðvum erlendis þar sem unnið er úr umsóknum innflytjenda áður en þeim er hleypt til landsins. Raunar þykir sumum stuðningsmönnum Íhaldsflokksins nóg um málatilbúnaðinn og óttast að hann hreki hugsanlega kjósendur frá flokknum. Engu að síður eru þessi málefni orðin svo áberandi að Blair sá í morgun ástæðu til að bregðast við. Hann vill ekki taka jafn hart á og Íhaldsmenn heldur taka upp einskonar punktakerfi sem hyglir fyrst og fremst vel menntuðu fólki sem nýtist á vinnumarkaði. Raunverulegir flóttamenn yrðu á móti hugsanlega sendir heim eftir fimm ára dvöl á Bretlandi, sé ástandið í heimalandinu talið betra. Bretar taka á móti fleiri innflytjendum og flóttamönnum en nokkuð annað Evrópuríki og gert er ráð fyrir því að rekja megi fólksfjölgun þar á næstu árum fyrst og fremst til innflytjenda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×