Innlent

Nauðgunarfórnarlambi vísað frá

Héraðsdómur Reykjavíkur gagnrýnir lögregluna í Reykjavík og telur ámælisvert að hún skuli ekki hafa, í nóvember síðastliðnum, tekið á móti nauðgunarkæru konu þegar í stað, eins og henni hafi borið að gera. Konan vildi leggja fram kæru daginn eftir atburðinn og vildi að málið yrði tekið fyrir samdægurs. Lögreglufulltrúi tjáði konunni, þegar hún vildi leggja fram kæru, að lögreglumenn væru á námskeiði og því væri ekki mannskapur til að taka á móti kærunni. Konunni reyndist því ekki unnt að leggja fram kæru fyrr en daginn eftir. Í dómi Héraðsdóms í málinu í dag er það talið ámælisvert að lögreglan skuli ekki hafa tekið við kærunni samstundis. Maðurinn sem konan kærði var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn henni en hann var ákærður fyrir að hafa með ofbeldi, og hótunum um ofbeldi, þröngvað hana til samræðis. Þau höfðu átt í stormasömu ástarsambandi en hætt saman skömmu fyrir atburðinn. Maðurinn sagði fyrir dómi að hann og konan hefðu ákveðið að hafa kynmök, en því neitaði konan. Héraðsdómur taldi framburð mannsins ótrúverðugan. Hann á að baki langan sakaferil en samanlögð óskilorðsbundin refsing hans nemur tæplega sjö árum. Hann hefur hlotið 13 refsidóma frá árinu 1985, þar af tæplega þriggja ára fangelsisdóm fyrir fíkniefnabrot. Héraðsdómur taldi brot mannsins alvarlegt og þótti hann hafa sýnt einbeittan brotavilja. Allt þetta hafði áhrif til refsihækkunar. Taldi dómurinn hæfilega refsingu tveggja ára fangelsi. Manninum var einnig gert að greiða konunni 700 þúsund krónur í miskabætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×