Innlent

Heppinn að vera á lífi

"Ég vaknaði við reykskynjarann en þar sem hann hafði kvöldið áður vakið mig af tilefnislausu ætlaði ég bara að slökkva á honum," segir Teitur Haraldsson íbúi hússins á Dalvík sem brann í fyrrinótt. "Svo gat ég bara ekki dregið að mér andan og þá var mér ljóst hvernig var." Hann segir það mikla gæfu að það var spónarplötuhleri í svefnherbergisglugganum sem hann gat slegið úr í einu höggi. Glugginn er á annari hæð og tæpir þrír metrar til jarðar og því ætlaði Teitur að freista þess að hringja í slökkviliðið og fá þá til að koma sér til bjargar. "En ég var svo skjálfhentur að ég gat ekki hringt og því var ekkert annað að gera en að koma sér útum gluggan." Hann náði að prýla langleiðina niður svo ekki varð honum meint af fallinu. Hinsvegar var hann sendur á Sjúkrahús Akureyrar en talið var að hann væri með reykeitrun. Teitur var enn á sjúkrahúsinu þegar Fréttablaðið fór í prentun og hafði því ekki séð húsið eftir brunan. "Vinir mínir hafa þó sagt mér að það sé talsvert illa farið en ég trúi því ekki að það sé ónýtt. Þetta hús er steypt allan hringinn. En mesti skaðinn er sá að allar myndirnar af mér og kærustunni og fjölskyldunni eru allar farnar." Hann segir að hann sé heppinn maður því ekki hefði verið spurt að leikslokum hefði hann hennt reykskynjaranum líkt og til stóð að gera. Hann hefur mætt einstökum hlýhug af samstarfsmönnum sínum í Norðurströnd sem er útgerðarfyrirtæki staðarins. "Mér hefur meðal annars verið boðið hús til að búa í en til þess þarf ekki að koma þar sem það er skúr fyrir utan húsið sem slapp alveg og hann verður hugsanlega bráðabirgðarheimili." Teitur hafði um skeið verið að byggja upp húsið sem heitir Sólborg og er eitt af elstu húsum bæjarins en það var byggt árið 1913. Að sögn lögreglu er ekki vitað um eldsupptök en Teitur telur líklegt að eldurinn hafi komið upp í herbergi þar sem hann hefur tölvur og önnur tæki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×