Innlent

Auðhringir og Íbúðalánasjóður

Dagurinn í miðbænum hófst með hinni árlegu 1. maí göngu klukkan hálf tvö þar sem jafnt ungir sem aldnir gengu frá Skólavörðuholti niður á Ingólfstorg með spjöld og fána á lofti til að krefjast betri kaups og kjara.. Stéttarfélög hafa sjaldan eða aldrei haft mikilvægara hlutverki að gegna eins og kom fram í 1. maí ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík. "Vaxandi áhrif auðhringa og stórfyrirtækja, sem styðjast við markaðssinnaða stjórnmálamenn sækja að réttindum og kjörum launafólks um allan heim," segir í ávarpinu og vill fulltrúaráðið koma reglu á kjör og aðstæður erlends vinnuafls hér á landi. "Stöndum vörð um Íbúðalánasjóð" sagði jafnframt í ávarpinu þar sem fulltrúaráðið gagnrýnir harða atlögu bankanna að sjóðnum. "Íbúðalánasjóður er í raun eina tryggingin fyrir því að vextir af íbúðalánum hækki ekki því hann tryggir samkeppni á þessum markaði," en annað sem brann á vörum ráðsins var starfsöryggi eldra fólks, fjölmiðlar, réttur langveikra barna og ástandið í Írak og Palestínu. Í kjölfar ávarpsins var átakið Einn réttur -- ekkert svindl! á vegum Alþýðusambands Íslands og aðildarsamtaka þess, kynnt. Með átakinu er barist gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði og ólöglegri atvinnustarfsemi með erlendu vinnuafli í skjóli brota á lögum og kjarasamningum en átakið hefst formlega í dag. Þó Femínistafélagið sé ekki stéttarfélag sem slíkt hafa femínistar tekið virkan þátt í skipulagningu hátíðarhalda 1. maí frá stofnun félagsins. Á því var engin breyting í gær en 35 ár voru síðan Rauðsokkurnar gengu niður Laugaveginn með borða um sig miðjan sem á var letrað: "Manneskja ekki markaðsvara". Í gær voru þessi einkunnarorð endurvakin og femínistar fjölmenntu í kröfugönguna með bleik spjöld í staðinn fyrir hinn hefðbundna rauða lit sem flaggað hefur verið á 1. maí til að tákna blóð sem píslarvottar verkalýðsins úthelltu fyrir réttindi verkamanna. Þegar niður á Ingólfstorg var komið hófst útifundur verkalýðsins. Ávarp fluttu Þórunn Sveinbjörnsdóttir, 1. varaformaður Eflingar, Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og Hulda Katrín Stefánsdóttir, formaður Iðnnemasambands Íslands. Ögmundur líkti auðmönnum landsins við Bogensen, kaupmann frá Óseyri í Axlarfirði úr hugmyndasmiðju Halldórs Laxness heitins, sem öllum og öllu réði í sinni sveit í krafti auðs og einokunarvalda. "Þeir líkna og lækna, hinir miklu velgjörðarmenn samfélagsins, alls staðar koma þeir fram sem veitendur. En þeim sem verðmætin skópu, almenningi, launafólki, er ætlað að sitja áhrifalausu á áhorfendabekkjum að klappa kapítalismanum lof í lófa," sagði Ögmundur í ræðu sinni. Hann endaði ávarpið á því hvetja verkalýðinn að snúa vörn í sókn.
Jafnt ungir sem aldnir fjölmenntu í miðbæinn og börðust fyrir betri kjörum.Mynd/E.Ól



Fleiri fréttir

Sjá meira


×