Innlent

Dæmt gegn virkum lífeyrisréttindum

Nokkrir af fyrrverandi starfsmönnum Seðlabankans hafa reynt að fá skerðingu á lífeyrisréttindum sínum hnekkt með dómi en án árangurs. Seðlabankinn og Lífeyrissjóður bankamanna hafa í fleiri en einu máli verið sýknaðir bæði í undirrétti og Hæstarétti. Málið má rekja til ársins 1998, en þá tók við ný reglugerð um lífeyrisréttindi starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans í tengslum við einkavæðingu Landsbankans. Með reglugerðinni var meðal annars afnumin svokölluð eftirmannsregla, en hún kveður á um að eftirlaun miðist við launahækkanir eftirmanns í starfi í stað þess að miðast við verðtryggingar af öðrum toga. Fjöldi starfsmanna Seðlabankans,sem nú þiggja eftirlaun samkvæmt nýju reglugerðinni, telja að um svik á ráðningarsamnigi sé að ræða, enda hafi í áratugi verið vísað til hagstæðra lífeyristrygginga í samningum um kaup og kjör. Einnig feli skerðingin í sér brot á eignarrétti, sem varinn er í stjórnarskránni. Loks geti verið um brot á jafnræðisreglu að ræða þar sem eitt sé látið gilda um þá en annað um aðra bankastarfsmenn. Sigurður Örn Einarsson fyrrverandi yfirmaður aðalskrifstofu Seðlabankans tapaði skaðabótamáli á hendur bankanum vegna skerðingarinnar í Hæstarétti í fyrra. Mál Jóhanns T. Ingjaldssonar fyrrverandi aðalbókara Seðlabankans gegn Lífeyrissjóði bankastarfsmanna hefur nú verið þingfest í Hæstarétti. Sjóðurinn var sýknaður af kröfum hans í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember síðastliðnum. Jóhann hóf töku lífeyris þegar árið 1991 og hafði því notið eignar sinnar í sjóðnum í sjö ár þegar til skerðingar kom með nýrri reglugerð. Dómurinn taldi að virk lífeyristaka samkvæmt eldri reglum skiptu ekki máli þar sem úttekt á skuldbindingum sjóðsins miðuðust við nýju reglurnar en ekki eldri skuldbindingar. Í nýju lögfræðiáliti Karls Axelssonar og Lilju Jónasdóttur um eftirlaunaréttindi ráðherra, þingmanna og dómara er varað við því að hrófla við eftirlaunaréttindum þeirra sem þegar þiggja þau. Hæstaréttur hefur einnig áréttað í máli frá árinu 2002 að heimild til að skerða virk lífeyrisréttindi sé þröng. Umrædd skerðing lífeyrisréttinda frá árinu 1998 nær til fjölda fyrrverandi starfsmanna Seðlabankans og getur í fyllingu tímans numið tugum eða jafnvel hundruð milljónum króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×