Erlent

Áfall fyrir Blair

Úrslit þingkosninganna í nótt eru nokkuð áfall fyrir Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem það gerist að breski Verkamannaflokkurinn vinnur þrjár kosningar í röð en flokkurinn tapaði engu að síður miklu fylgi og mörgum þingmönnum. Þetta er ekki alveg sú afmælisgjöf sem Tony Blair hafði óskað sér frá bresku þjóðinni í dag, á fimmtugasta og öðrum afmælisdegi sínum. Fólk var varla vaknað í Bretlandi í morgun þegar samflokksmenn Blairs byrjuðu að koma fram í sjónvarpi og krefjast þess, í ljósi úrslitanna, að hann hætti sem forsætisráðherra og Gordon Brown fjármálaráðherra taki við stjórnartaumunum. Flokkurinn hlaut 36% atkvæða, sex prósentum minna en síðast og aðeins þremur prósentum meira en Íhaldsflokkurinn sem fékk 33% atkvæða og stendur í stað frá síðustu kosningum. Frjálslyndir demókratar bættu hins vegar við sig fjórum prósentum og fengu atkvæði tuttugu og þriggja prósenta Breta. Vegna breska kosningakerfisins, einmenningskjördæmanna, þá fá flokkarnir ekki þingmenn í samræmi við prósentuhlutfall sitt á landsvísu. Af því leiðir að Verkamannaflokkurinn er með mun fleiri þingmenn en Íhaldsflokkurinn og heldur um 64 sæta meirihluta. Í sögulegu samhengi eru úrslitin bara nokkuð góðar fréttir fyrir Verkamannaflokkinn sem aldrei áður hefur farið með völdin í Bretlandi þrjú kjörtímabil í röð. Hins vegar er þessi litli meirihluti áfall. Flokkurinn var með 161 sæta meirihluta síðasta kjörtímabil og var í aðdraganda kosninganna spáð um hundrað sæta meirihluta. 64 sæta meirihluti er á mörkum þess að vera ásættanlegur fyrir flokkinn sem að jafnaði þarf að glíma við um fimmtíu þingmenn innan eigin raða sem ekki kjósa eftir flokkslínunni. Þetta þýðir að Blair mun eiga erfitt með að koma stefnumálum sínum í gegnum breska þingið. Þetta þýðir einnig að þess verður ekki lengi að bíða að Blair standi upp úr forsætisráðherrastólnum og víki fyrir Gordon Brown. Hefði kosningasigur Blairs orðið meira afgerandi hefði honum verið stætt á því að sitja, jafnvel út þetta kjörtímabil. En vegna þessara úrslita, þó söguleg séu, þá eru pólitískir dagar Tony Blairs brátt taldir.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×