Erlent

Blair heitir róttækum umbótum

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur þegar stokkað upp í bresku stjórninni í kjölfar þingskosninganna í fyrradag. Blair tilkynnti strax í gær um breytingarnar. Endanleg úrslit í bresku þingkosningunum liggja nú fyrir en kosið var í 645 kjördæmum. Samkvæmt lokatölum hlaut Verkamannaflokkurinn 356 þingsæti og tapaði 47 sætum frá kosningunum 2001, þótt hann hafi sigrað þriðja kjörtímabilið í röð. Íhaldsflokkurinn fékk 197 þingsæti og bætir við sig þrjátíu og þremur. Frjálslyndir demókratar hlutu 62 þingsæti og bæta við sig ellefu. Aðrir flokkar bættu við sig þremur og fengu alls þrjátíu þingsæti. Verkamannaflokkurinn hafði 161 sætis meirihluta á síðasta þingi en hefur nú aðeins 66 sæta meirihluta sem talið er veikja stöðu Blairs verulega. Blair hefur þegar stokkað upp í stjórninni og tilkynnti um breytingarnar í gær. Geoff Hoon lætur af embætti varnarmálaráðherra og í þann stól sest John Reid. Reid var áður yfir heilbrigðismálunum en við því embætti tekur Patricia Hewitt sem verið hefur viðskipta- og iðnaðarráðherra. Þá er David Plunkett aftur kominn inn í bresku stjórnina en Plunkett, sem er blindur, neyddist til þess að segja af sér sem innanríkisráðherra á síðasta ári vegna hneykslismála. Hann gegnir nú embætti atvinnu- og lífeyrismálaráðherra. Gordon Brown, líklegur eftirmaður Blairs, verður áfram fjármálaráðherra, eins og búist hafði verið við, og Jack Straw situr enn í stóli utanríkisráðherra. Mark Seddon, þingmaður Verkamannaflokksins, sem tilheyrir vinstri armi flokksins, segir stöðuna sýna að Blair verði að miðla málum á nýju þingi. Blair hefur heitið róttækum umbótum heimafyrir í heilbrigðismálum, menntamálum og málefnum innflytjenda. Varðandi utanríkismálin telur hann fátækt í Afríku og deilur Ísraelsmanna og Palestínumanna meðal þess sem hann vill setja efst á forgangslistann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×