Viðskipti innlent

Lyfjasala undir væntingum

Sala á lyfjum frá Actavis stóð ekki undir væntingum á fyrsta fjórðungi ársins. Afkoman var jákvæð um rúmar 900 milljónir króna sem er 900 milljónum minna en á sama tíma í fyrra þegar Ramipril-hjartalyfin fóru á markað. Afkoma Actavis var nokkuð undir spám bankanna. KB banki spáði ríflega 1,1 milljarðs króna hagnaði, Íslandsbanki spáði 1,2 milljörðum í hagnað og Landsbankinn spáði því að hagnaður fyrirtækisins næmi 1,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungnum. Tekjur Actavis lækkuðu um rúmt 21 prósent á milli ára en þær voru tæpar 130 milljónir evra á sama tímabili í fyrra en námu tæpum 102 milljónum evra fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Á fyrsta ársfjórðungi í fyrra var hjartalyfið Ramipril sett á markað sem leiddi til þess að ársfjórðungurinn var sá besti í sögu félagsins. Sala eigin vörumerkja félagsins jókst um rúmlega 15 prósent frá sama tímabili í fyrra. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands er haft eftir Róberti Wessman forstjóra að ársfjórðungurinn sé í samræmi við væntingar félagsins. Framtíðarhorfur félagsins séu góðar því fjöldi nýrra lyfja muni fara á markað á árinu. Þá kemur fram að eftir kaup félagsins á lyfjafyrirtækjum upp á síðkastið sé fyrirtækið með 136 lyf í þróun og skráningu sem sé með því mesta sem gerist í heiminum í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×