Viðskipti innlent

Disney dreifir Latabæ í Evrópu

Forsvarsmenn Latabæjar og Disney-samsteypunnar skrifuðu í dag undir samning um rétt til að sýna Latabæjarþættina í Frakklandi, á Ítalíu og á Spáni. Enn er ekki ákveðið hvenær næsta þáttaröð verður framleidd. Þættirnir um Latabæ eru nú sýndir eða á leið í sýningu í á þriðja tug landa. Frakkland, Spánn og Ítalía eru mjög stórir markaðir og Latabæjarfólk er því afar ánægt með að hafa náð samningum við Disney, einn stærsta framleiðanda skemmtiefnis í heiminum, um dreifingu á þáttunum þar. Ef marka má fréttir frá fyrirtækinu ganga þættirnir vel í hverju einasta landi þar sem þeir eru sýndir. En er virkilega ekkert mótlæti - bara velgengni? Ágúst Freyr Ingason, aðstoðarforstjóri Latabæjar, segir að það megi segja það. Þættirnir hafi síðast verið sýndir í Suður-Ameríku og þar hafi þeir orðið þriðja vinsælasta efnið á átta dögum. Það sé frábært og ekki sé hægt að biðja um meira. Ágúst segir vel koma til greina að gera Latabæjarkvikmynd þegar fram líða stundir. Það voru framleiddir 35 þættir og það eru þeir sem verið er að selja núna. En hvenær á að gera næstu þáttaröð? Ágúst segir verið að skoða það þar sem sjónvarpsstöðvarnar sem hafi sýnt þættina séu áhugasamar um fleiri þætti. Aðspurður hvers virði samningarnir við Disney séu segir Ágúst að samningarnir séu góðir og aðstandendur Latabæjar hafi náð góðum kjörum miðað við það sem gerist á markaðnum. Framleiðslan hafi þó verið dýr, gera verði fleiri samninga og þá komi þetta allt saman.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×