Sport

Chelsea, Mourinho og Cole fá sekt

Englandsmeistarafélag Chelsea, knattspyrnustjórinn þess Jose Mourinho og Ashley Cole leikmaður Arsenal fengu  nú undir kvöldið hæstu peningasektir sem sögur fara af hjá enska knattspyrnusambandinu. Sektirnar eru refsing fyrir að halda ólöglegan fund sín á milli og var Chelsea í dag fundið sekt um að ræða við samningsbundinn leikmann án leyfis. Cole sem á 2 ár eftir af samningi sínum við Arsenal hitti Peter Kenyon stjórnarformann Chelsea og Mourinho á veitingastað í London þann 27.janúar sl. til viðræðna sem snerust um að fá leikmanninn yfir til meistaranna. Arsenal klagaði atvikið og Aganefnd enska knattspyrnusambandsins úrskurðaði um sekt aðilanna í málinu í dag. Sekt Chelsea nemur 300.000 punda, Mourinho var sektaður um 200.000 pund og Cole þarf að punga út 100.000 pundum. Arsenal fær engar skaðabætur vegna atviksins sem félagið fór fram á. Umboðsmaður Cole heyrir ekki undir lögsögu enska sambandsins og gat því ekki hlotið refsingu. Áfrýjunarfrestur rennur út eftir 2 vikur. Lögfræðingur Cole ætlar hins vegar að áfrýja úrskurðinum um leið og beitir hann fyrir sér þeim rökum að Cole sé einfaldlega starfsmaður fyrirtækis sem ætti að mega ræða við önnur fyrirtæki eins og almennt starfsfólk. Búist er við að þetta mál muni draga langan dilk á eftir sér. Fái lögrfæðingur Ashley Cole sínu framgengt þarf að breyta ákvæðum í knattspyrnulögum. Það þýddi að Cole fengi nýtt lagaákvæði kennt við sig í lagabókum eins og Mark Bosman gerði um árið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×