Sport

Sorglegt tap gegn slökum Ungverjum

 Íslenska landsliðið í knattspyrnu er enn án sigurs í undakeppni HM eftir grátlegt tap gegn Ungverjum á Laugardalsvelli, 2-3. Ungverjar fengu tvö víti og Ísland missti þrjá menn meidda af velli. Leikurinn fór mjög rólega af stað og bæði lið fórnuðu fáum mönnum í sóknina. Það var í raun lítið sem ekkert að gerast þegar Eiður Smári kom Íslandi yfir. Örlítill heppnisstimpill var á markinu en boltinn féll óvænt fyrir fætur Eiðs í teignum sem gat vart annað en skorað. Markið virkaði eins og vítamínssprauta á íslenska liðið sem óx verulega ásmegin í kjölfarið. Næstu 15 mínútur voru þær bestu hjá íslenska liðinu í undankeppninni. Þær spilaði liðið af áður óséðu sjálfstrausti. Leikmenn voru óragir við að taka andstæðinginn á og pressan að marki Ungverja þyngdist með hverri mínútu. Þrátt fyrir það sáust engin færi. Það var síðan eins og vænt kjaftshögg þegar Ungverjar jöfnuðu rétt fyrir hlé og íslenska liðið varð að sætta sig við jafna stöðu í leikhléi þrátt fyrir að hafa verið mun betri aðilinn í leiknum. Vendipunktur leiksins kom á 56. mínútu þegar Ungverjar fengu aðra vítaspyrnu. Haraldur Freyr virtist brjóta á einum Ungverjanum en portúgalski dómarinn skráði brotið á Ólaf Örn sem fékk fyrir vikið sitt annað gula spjald í leiknum og þar með það rauða. Gera skoraði úr vítinu og Ungverjar mjög óverðskuldað komnir með öll tök á leiknum. Íslenska liðið neyddist til að gera taktískar breytingar á leik sínum. Stefán fór í stöðu Ólafs og Eiður bakkaði inn á miðjuna til Brynjars. Ísland hefði átt að fá víti á 65. mínútu en dómarinn lét sér nægja að dæma aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Hana tók Eiður Smári og skot hans endaði í stönginni. Betur gekk fjórum mínútum síðar þegar Kristján Örn Sigurðsson afgreiddi sendingu Eiðs Smára á snilldarlegan hátt í netið. Ísland búið að jafna manni færri og þar að auki miklu betri aðilinn í leiknum. Ungverjar skoruðu síðan enn eina ferðina gegn gangi leiksins á 73. mínútu. Brynjar Björn tapaði boltanum á slæmum stað, Ungverjar keyrðu hratt upp og Huszti renndi boltanum í netið. Þetta var þriðja skot Ungverja sem fór á markið og það fyrsta í venjulegum leik. Öll þessi skot enduðu því miður í íslenska markinu. Grátleg niðurstaða. Það var algjör óþarfi að tapa þessum leik enda eru Ungverjar ekki með sérstakt lið og það bauð upp á lítið sem ekkert í Dalnum í gær. Samt gekk það af velli með öll stigin. Það segir meira en mörg orð um íslenska liðið sem var á köflum klaufalegt í vörninni og það vantaði oftar en ekki herslumuninn og vel það í sóknarleiknum. Það var frábært að sjá til íslenska liðsins eftir að Eiður Smári fór á miðjuna og það er með ólíkindum að landsliðsþjálfararnir hafi ekki látið hann byrja leikinn á miðjunni. Þar hefur hann farið á kostum með Chelsea og leikur íslenska liðsins var bestur eftir að hann kom á miðjuna, og það þrátt fyrir að Ísland væri manni færri. Það segir líka meira en mörg orð um stöðu, og spilmennsku, íslenska landsliðsins í dag að þrátt fyrir tapið var þetta besti leikur liðsins í háa herrans tíð. Það verður fróðlegt að sjá hvernig leikmenn bregðast við þessu tapi gegn Möltu á miðvikudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×