Fótbolti

Kaup­verðið klárt og Albert á leið í fjólu­blátt

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson raðaði inn mörkum fyrir Genoa á síðustu leiktíð.
Albert Guðmundsson raðaði inn mörkum fyrir Genoa á síðustu leiktíð. Getty/Simone Arveda

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er á leið í læknisskoðun hjá ítalska félaginu Fiorentina á morgun og hefur félagið samið um kaup á honum frá Genoa.

Frá þessu greinir meðal annars einn helsti sérfræðingur heims um félagaskipti í fótboltanum, Fabrizio Romano, sem segir að Fiorentina muni greiða 8 milljónir evra fyrir að fá Albert að láni, með klásúlu um kaup fyrir 17 milljónir evra sem gætu orðið skylda, auk þriggja milljóna evra í aukagreiðslu.

Það sem helst stóð í vegi fyrir kaupunum var að Genoa vildi reyna að fylla í skarðið fyrir Albert og það virðist vera að takast með kaupum félagsins á Ítalanum Andrea Pinamonti frá Sassuolo.

Eins og greint hefur verið frá í íslenskum fjölmiðlum var Albert í sumar ákærður fyrir nauðgun en ekki er minnst á það mál í fréttum ítalskra miðla og ljóst að þó að ekki sé komin niðurstaða í það mál þá virðist það ekki koma í veg fyrir að hann fari til Fiorentina.

Albert átti frábæra leiktíð í ítölsku A-deildinni síðasta vetur og skoraði fjórtán mörk fyrir Genoa. Hann hefur því vakið athygli stærri félaga og meðal annars verið orðaður við enska félagið Tottenham.

Nú er allt útlit fyrir að Albert endi hjá Fiorentina sem hafnaði í 8. sæti ítölsku deildarinnar á síðustu leiktíð og kom sér í Sambandsdeild Evrópu. Fyrsta umferð ítölsku deildarinnar er um helgina og þar mætir Fiorentina liði Parma á útivelli á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×