Sport

Það var mikið mótlæti í leiknum

Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði íslenska landsliðsins, átti stórleik í gær en það reyndi mikið á íslenska liðið í leiknum eins og fram kemur í viðtali við kappann eftir leik. „Það er alltaf sárt að tapa, sérstaklega þegar maður hefur vanist því að vinna. Spilamennska okkar var engu að síður mjög góð og mun betri en í síðustu leikjum. Andinn í liðinu var mjög góður og oft var mjög góður fótbolti á köflum. Mótlætið var þó mikið, til dæmis hvað varðar dómarana. Við misstum mann útaf en létum ekki deigan síga og náðum að jafna, svo kom smá einbeitingarleysi undir lokin þegar við fengum á okkur þriðja markið. Ég var alls ekki sáttur við dómarann í þessum leik og hef ekki meira um það að segja." sagði Eiður Smári fljótlega eftir leikinn en hann fékk að líta gult spjald í síðari hálfleik fyrir mótmæli. Þrátt fyrir langt og strangt tímabil með Chelsea var Eiður mjög frískur í leiknum, skoraði gott mark og hefði getað sett fleiri með smá heppni. „Ég var óheppinn að ná ekki að setja fleiri mörk, átti þarna aukaspyrnu sem hafnaði í samskeytunum og svo fékk ég færi sem ég hefði kannski átt að klára betur en boltinn skoppaði svolítið asnalega akkúrat í skrefinu hjá mér." sagði Eiður og var skiljanlega fúll á svip yfir því að ekkert stig hafi skilað sér í hús í þessum leik. „Nú þurfum við bara að ná okkur strax eftir þetta svekkelsi og koma vel stemmdir í næsta leik, með þessari spilamennsku ættum við ekki að verða í teljandi erfiðleikum gegn Möltu en hugarfarið þarf að vera rétt." sagði Eiður Smári Guðjohnsen. -egm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×