Viðskipti innlent

Íslandsbanki: Vill ekkert tjá sig

Einar Sveinsson, stjórnarformaður Íslandsbanka, vildi ekkert tjá sig um kaup Burðaráss á hlut Steinunnar Jónsdóttur í bankanum þegar fréttastofan náði sambandi við hann á sjöunda tímanum í kvöld en hann er á ráðstefnu í Álasundi á vegum bankans með Bjarna Ármannssyni, forstjóra Íslandsbanka. Hvorki náðist í Bjarna né Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði viðskipti dagsins hljóta að verða til þess að umræða um lög um dreifða eignaraðild og aðskilnað einkabanka- og fjárfestingabankastarfsemi lifnaði á ný. Kæmi til sameiningar Íslandsbanka og Landsbankans væri það ískyggileg samþjöppun. Burðarás keypti í dag 4,11% hlut Steinunnar Jónsdóttur í Íslandsbanka. Nafnvirði hlutanna var tæpar 540 milljónir króna en keypt var á genginu 13,6. Söluverðið er því tæpir 7,4 milljarðar króna. Kaupin breyta valdahlutföllum innan bankans verulega. Burðarás á 7,46% hlut í Íslandsbanka eftir viðskiptin í dag en Steinunn, eða eignarhaldsfélag hennar, Arkur ehf., var fyrir viðskiptin fjórði stærsti hluthafinn í bankanum. Fjárfestingarbankinn Straumur er enn langstærsti hluthafinn með rúmlega 21% hlut og Milestone ehf., eignarhaldsfélag Wernersbarna, á 7,88%. Burðarás er því orðinn þriðji stærsti hluthafinn með sín 7,46%. Samkvæmt öruggum heimildum fréttastofu náði Steinunn upphaflega samkomulagi við hóp tengdum Straumi um kaup á hlut sínum. Síðan ákvað hún að gefa fylkingu bankastjóra og stjórnarformanns einnig möguleika á kaupum á hlutnum. Báðum fylkingum var því gefinn frestur til klukkan hálfníu á mánudagsmorgun til að bjóða um átta milljarða í hlutinn en engin tilboð bárust. Eftir því sem fréttastofan kemst næst er hagnaður Steinunnar ríflega tveir og hálfur milljarður og hefur hún því grætt tæpar þrjú hundruð milljónir á mánuði frá því að hún keypti bréfin. Valdahlutföll í bankanum breytast verulega við kaupin í dag, Straumsfylkingunni í vil. Undanfarið hefur staðið yfir allt að því blóðug barátta á milli hennar og fylkingar stjórnarformanns bankans og forstjóra. Hlutur Straums og Burðaráss er nú um 28,9%. Leitt hefur verið líkum að því að kaupin gætu leitt til yfirtöku Landsbankans á Íslandsbanka en fyrirtæki í eigu Björgólfsfeðga eiga stóran hlut í Straumi. Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, harðneitar því hins vegar að nokkuð slíkt sé uppi á teningnum: kaupin tengist Straumi ekki á nokkurn hátt. Þá verði ekki boðið til hluthafafundar og yfirtaka sé alls ekki í burðarliðnum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×