Sport

Loks sigur hjá Íslandi

Íslenska landsliðið í knattspyrnu vann 4-1 sigur á Möltu í undankeppni HM en leiknum var að ljúka á Laugardalsvellinum. Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Eiður Smári Guðjohnsen skoruðu mörk íslenska liðsins í fyrri hálfleik en Tryggvi Guðmundsson og Veigar Páll Gunnarsson bættu hinum mörkunum við í seinni hálfleik. Möltumenn náðu að minnka muninn í 2-1 á 59. mínútu með marki Brian Said. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði fyrsta markið með skalla úr markteig á 28. mínútu eftir fyrirgjöf Tryggva Guðmundssonar og lagði síðan upp það seinna fyrir Eið Smára Guðjohnsen. Þetta er fyrsti landsleikur Gunnars Heiðars í byrjunarliðinu og ekki slæm byrjun það. Möltubúar minnkuðu muninn á 59. mínútu. Það hafði dofnað mikið yfir íslenska liðinu. Árni Gautur hálfvarði langskot eftir aukaspyrnu og Brian Said fylgdi á eftir og skoraði í tómt markið úr markteignum. Þetta er 18. markið sem íslenska liðið fær á sig í undankeppninni. Tryggvi Guðmundsson átti skot af 40 metra færi sem hafnaði í þverslánni á 67. mínútu en hann átti áður skot í slána í leiknum. Tryggvi kom svo Íslandi í 3-1 þegar hann setti boltann inn í markið af stuttu færi á fjarstöng eftir fyrirgjöf Veigars Páls Gunnarssonar. Varnarmenn Möltu gleymdu Tryggva sem nýtti sér það vel að vera réttur maður á réttum stað. Tryggvi náði þar með að skora eitt mark og leggja upp tvö í þessum leik. Tryggvi launaði svo Veigari stoðsendinguna skömmu síðar í þriðja markinu með því að leggja upp fjórða markið Íslands sem Veigar Páll skoraði með viðstöðulausu skoti úr markteignum. Þetta er fyrsta mark Veigars Páls fyrir A-landsliðið. Malta situr eftir í botnsæti riðilsins með eitt stig en Ísland er með fjögur. Tryggvi Guðmundsson var maður leiksins, skoraði eitt mark og lagði upp tvö en hann átti auk þess skalla í stöng og skot í slá. Markið hans Eiðs Smára var hans fimmtánda fyrir íslenska landsliðið en aðeins Ríkharður Jónsson hefur nú skorað fleiri (17 mörk, 1947-1965). Eiður hefur þar af skorað fimm mörk í undankeppninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×