Sport

Allt vitlaust út af Glazer

Malcom Glazer, nýr meirihlutaeigandi í Manchester United, er strax farinn að ergja aðdáendur liðsins með afskiptum sínum af rekstri félagsins.Spurst hefur út að miðaverð á úrvalsdeildarleiki á heimavellinum Old Trafford muni hækka úr 30 pundum í 46 pund á fimm árum. Þá hyggst Glazer einnig hækka miðaverð á meistaradeildarleiki um 25 prósent.Þetta mælist afar illa fyrir hjá aðdáendum félagsins sem efast um að breytingarnar verði til þess að auka tekjur til félagsins. "Ég er ekki viss um að leikvangurinn verði fullur á móti Charlton eða Portsmouth á virkum degi, eins og hefur verið í mörg ár," segir Andy Mitten, einn af ritstjórum blaðsins United We Stand, sem er aðdáendablað stuðningsmanna Manchester United. Malcolm Glazer ætlar að freista þess að auka tekjur hjá félaginu umtalsvert fyrir árið 2010 og er hækkunin á miðaverðinu liður í því.Margir aðdáenda félagsins efast um að þessi aðgerð muni verða til þess að meiri peningar skili sér í kassann hjá félaginu, þar sem þetta muni hafa fælandi áhrif á fólk. "Hvernig á eftir að ganga með að fylla leikvanginn þegar aðdáendur snúa baki við félaginu á hverjum degi? Ég hef því miður ekki góða tilfinningu fyrir þessari þróun," sagði Nick Towle, forsvarsmaður hluthafafélags sem upphaflega var stofnað til þess koma í veg fyrir að Glazer næði undirtökum í félaginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×