Viðskipti innlent

Boðið í stofnfé í SPH

Tekist er á um völdin enn á ný í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Gengið er á stofnfjáreigendur í sparisjóðnum um að kaupa af þeim stofnfjárbréfin. Eigendur stofnfjár í sjóðnum eru um 47 talsins. Mikil verðmæti liggja í stofnfénu sem er 15,5 milljónir að uppfærðu nafnverði og er meðaleign hvers stofnfjáreigenda um 328 þúsund krónur. Talið er líklegt að heildarverðmæti stofnfjár í Sparisjóði Hafnarfjarðar sé vel á fimmta tug milljóna króna virði á hvern stofnfjáreigenda. Nokkrir stofnfjáreigendur sem rætt var við í gærkvöldi staðfestu þetta en svo virðist vera sem aðeins hafi verið rætt við hluta stofnfjáreigenda um kaup á bréfum þeirra. Mikið hefur verið undir niðri í sparisjóðnum eftir að hallarbyltinguna í vor þegar hópur undir forystu Páls Pálssonar felldi gömlu stjórnina. Þá sagði Páll að markmið nýrrar stjórnar væri tryggja rekstur SPH sem væri sterk og góð fjármálastofnun. Páll sá meðal annars tækifæri í því að stækka hlutdeild SPH á fyrirtækjasviði. Við það tilefni sagði Páll: "Við boðum hugmyndir um ákveðna útrás og ætlum að stækka sjóðinn," og bætti því við að höfuðstöðvar Sparisjóðsins yrðu áfram í Hafnarfirði. Ekki náðist í Pál í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hyggst núverandi stjórn styrkja tök sín á sparisjóðnum. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður vann fyrir stjórnina í aðdraganda hallarbyltingarinnar. Sigurður G. neitaði í samtali við Fréttablaðið að eiga nokkurn þátt í söfnun bréfanna. Það fékkst staðfest í gærkveldi að hvorki SPRON né Sparisjóður vélstjóra, tveir af stærstu sparisjóðum landsins, að Sparisjóði Hafnarfjarðar undanskildum, eru meðal kaupenda.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×